„Haldið áfram að huga að eigum“

Mesta tjónið varð í Vestmannaeyjum og á Suðurlandi.
Mesta tjónið varð í Vestmannaeyjum og á Suðurlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tryggingafélögin VÍS, Sjóvá og TM voru á tánum vegna óveðursins í gær en betur fór en á horfðist. Tjónið er mest Suðurlandi og meirihlutinn minniháttar. Fólk er beðið að halda áfram að huga að eigum sínum þar sem tjón af völdum utanaðkomandi vatns er t.d. ekki bótaskylt.

Auður Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri tjónasviðs hjá Sjóvá, segir fáar tilkynningar hafa borist hingað til. „Svo virðist sem við höfum öll verið meðvituð um það sem var að skella á og verið vel undirbúin,“ segir hún. „Fólk er ekki lengur með mikið af lausum munum úti hjá sér og er almennt búið að ganga frá og skorða allt vel.“

Hún segir tvö til þrjú tjónstilvik vera í stærri kantinum en þó óveruleg. Flest eru þau á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum.

Minja­gripa­versl­un­ við Selja­lands­foss brotnaði í spað. Tjónið er mest á …
Minja­gripa­versl­un­ við Selja­lands­foss brotnaði í spað. Tjónið er mest á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Rax / Ragnar Axelsson

Sextíu tilkynningar hjá VÍS

Björn Friðrik Brynj­ólfs­son, upplýsingafulltrúi VÍS, segir að um sextíu tilkynningar um tjón hafi borist félaginu. „Þetta virðist allt vera frekar lítið og mér heyrist á mínu fólki að þetta hafi farið töluvert betur en búast mátti við,“ segir hann en tekur þó fram að tilkynningar séu oft nokkurn tíma að berast og gæti tjónstilkynningum þar með fjölgað.

Ragnheiður Dögg Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs TM, segir töluvert af hringingum vegna lekamála sem fylgja hlákunni eftir storminn hafa borist í morgun. 

Enn er verið að ná utan um heildarumfang tjónsins á þeim svæðum sem verstu urðu úti og stærstu málin eru, þ.e. á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Hún segir höfuðborgina hins vegar hafa sloppið nokkuð vel og nefnir að tilkynningarnar séu færri en eftir storminn 14. mars sl. 

Ekkert stórtjón sem gæti endað í endurtryggingaþökum hafi ratað inn á borð félagsins.

Haldið áfram að moka frá og huga að eigum.
Haldið áfram að moka frá og huga að eigum. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Moka frá og huga að eigum

Ragnheiður bendir fólki á að halda áfram að huga að eigum sínum. „Það er ennþá mikill snjór yfir öllu og fólk þarf að moka frá og huga að þessu,“ segir hún. „Flest málin í dag eru vegna leka og utanaðkomandi vatns og það er margt hægt að gera til þess að koma í veg fyrir það.

Mikilvægt er að moka frá og halda frárennslum opnum.“

Tjón vegna utanaðkomandi vatns, s.s. frá leka af þaki í gegnum stíflaðar rennur, vatnsleka frá svalahurðum eða leka í kjallara út frá stífluðu niðurfalli, er ekki bótaskylt og er því gott að huga að þessum atriðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK