Mjólkurdrykkur með þorskroði á markað

Codland hefur unnið að þróun hágæða kollagen vöru úr íslensku ...
Codland hefur unnið að þróun hágæða kollagen vöru úr íslensku þorskroði. mbl.is/RAX

Þorskroð og mjólk kann að hljóma sem undarleg blanda í eyrum margra. Codland og Mjólkursamsalan hafa samt sem áður ákveðið að hefja samstarf um þróun á tilbúnum drykkjum þar sem hráefni frá báðum aðilum nýtur sín. 

Codland hefur unnið að þróun hágæða kollagenvöru úr íslensku þorskroði í samstarfi við Matís og með styrk frá Tækniþróunarsjóði. Markmiðið er að búa til náttúrulega vöru sem tengir saman landbúnað og sjávarútveg.

Horfa til Hleðslu

„Þetta er ennþá á frumstigi og við erum ekki komnir með neina vöru sem við erum búin að geirnegla. En við erum að spá í einhverja drykki og sá drykkur sem við höfum verið að skoða er Hleðsla,“ segir Björn S. Gunnarsson, vöruþróunarstjóri hjá MS, í samtali við mbl. 

Björn segir borðið þó enn vera tiltöluleg opið. „Við erum að prófa að blanda kollageninu í nokkrar vörur og sjá hvernig það kemur út,“ segir hann.

Aðspurður hvort niðurstaðan sé eitthvað í átt að mjólk með fiskibragði segir hann bragðið vera merkilega lítið og þá helst örlítill saltkeimur. „Kollagenið hefur þykkjandi eiginleika,“ segir hann. „Það getur þykkt drykkina svolítið mikið ef þú ferð langt með það og því þarf að stilla það aðeins af,“ segir hann og bætir við að hægt sé að fela bragðið betur með öðrum bragðefnum. „Það eru ýmsir möguleikar í þessu.“

Björn S. Gunnarsson vöruþróunarstjóri MS og Tómas Þór Eiríksson framkvæmdastjóra ...
Björn S. Gunnarsson vöruþróunarstjóri MS og Tómas Þór Eiríksson framkvæmdastjóra Codland skrifa undir samstarfssamning á milli fyrirtækjanna.

Stefna á framleiðslu 2017

Líkt og áður segir hefur Codland unnið að þróun hágæða kollagenvöru úr íslensku þorskroði í samstarfi við Matís og með styrk frá Tækniþróunarsjóði. Kollagen er talið eitt mikilvægasta prótein líkamans en hlutverk þess er m.a. að halda húðinni stinnri og styrkja liðamót. Vinnslan á roðinu færir Codland nær markmiðum sínum um að auka verðmæti þorsksins með betri nýtingu hliðarafurða.

Codland stefnir að því að reisa hér á landi verksmiðju sem framleiða mun kollagen úr fiskroði en þar til hún verður tilbúin verður framleiðslan hjá samstarfsaðilum þeirra á Spáni.

Björn bendir á að Codland telji sig geta náð meiri gæðum í verksmiðjunni hér á landi og er unnið út frá því að hefja framleiðslu á mjólkurdrykknum eftir tilkomu hennar sem gæti verið snemma árs 2017.

Næsta ár verður því líklega notað í frekari vöruþróun.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir