Rétt að endurskoða Tækniþróunarsjóð?

Tækniþróunarsjóður er meðal þeirra samkeppnissjóða sem ríkið leggur til fjármuni …
Tækniþróunarsjóður er meðal þeirra samkeppnissjóða sem ríkið leggur til fjármuni árlega. mbl.is/Árni Sæberg

Undanfarið hefur miklum fjármunum verið varið í Tækniþróunarsjóð sem hefur það hlutverk að fjármagna tækniþróun og nýsköpun. Árið 2014 fékk sjóðurinn tæplega milljarð, á þessu ári var upphæðin tæplega 1,4 milljarður og á næsta ári er áætlað að bæta við einum milljarði þannig að sjóðurinn hafi úr að spila 2,35 milljörðum.

Þrátt fyrir þessa gífurlegu aukningu virðast menn ekki hafa bakkað aðeins til baka og skoðað starf hans og hlutverk í víðara samhengi. Þetta segir Kristinn Árni Hróbjartsson, en hann hefur ásamt tveimur félögum sínum skrifað um sprota- og frumkvöðlafyrirtæki á vefnum Norðurskautið. Skrifaði hann þar grein í gær um Tækniþróunarsjóð sem hefur vakið athygli í frumkvöðlasamfélaginu.

Kristinn segir í samtali við mbl.is að í raun sé Tækniþróunarsjóður ekki ætlaður til að fjármagna bara frumkvöðlafyrirtæki, en það hafi engu að síður þróast þannig að mörg slík fyrirtæki sem séu að taka sín fyrstu skref leiti þangað. Helgast það af því að erfiðlega getur verið fyrir einstaklinga og nýstofnuð fyrirtæki að ná tengingu við mögulega fjárfesta sem eru tilbúnir að setja peninga í nýjar hugmyndir.

Þarf að skoða uppbygginguna betur?

„Flestir eru ánægðir með að verið sé að auka fjármögnun í þennan sjóð,“ segir Kristinn. „Það eru komnir mjög miklir peningar í þennan sjóð, en hvenær er kominn tími til að pæla í hvernig hann er uppbyggður?“ spyr hann.

Ástæða þessa að Kristinn fór að velta þessum hlutum fyrir sér var að Tækniþróunarsjóður birti í vikunni lista yfir þau fyrirtæki sem gengið yrði til samninga við á þessu úthlutunartímabili. Var þar meðal annars að finna fjölda minni fyrirtækja, en einnig stór fyrirtæki eins og MS og Hampiðjuna. Þá segir hann að ef horft sé aftur um nokkur ár megi sjá styrki til Marel og fleiri fyrirtækja. Þetta séu oft á tíðum mjög stöndug fyrirtæki og jafnvel með starfsstöðvar víða um heim.

„Siggi og Gunna“ keppa við stór alþjóðleg fyrirtæki

Hann segir að sér finnist það skrítið að stór alþjóðleg fyrirtæki geti sótt um 15 milljóna króna styrki á ári úr sjóðnum og séu að keppa við „Sigga og Gunnu“ sem eru með sprotafyrirtækið sitt í bílskúrnum. Spyr hann hvort rétt væri að skipta sjóðnum upp þannig að fólk væri að sækja um á jafnari grundvelli en að keppa við fólk sem sé nú þegar á launum hjá stórum fyrirtækjum. Í slíkum tilfellum geti fólk útbúið umsóknir og grunnvinnu mun betur en einstaklingar sem séu sjálfir að koma fram og stofna fyrirtæki.

Í grein sinni á Norðurskautinu bendir hann einnig á að úthlutanir sjóðsins séu á mjög breiðu bili, frá rannsóknarstyrkjum fyrir háskóla út í þróunarstyrki fyrir tölvuleikjafyrirtæki.

Kristinn tekur þó fram að hann telji þessi stóru fyrirtæki flott fyrirtæki og sé ekki að setja út á þau sjálf, þessi staða kalli þó á umræðu um hlutverk og uppbyggingu sjóðsins, t.d. hvort rétt væri að skipta sjóðnum upp í minni einingar eða fara aðrar leiðir.

Kristinn Árni Hróbjartsson vill koma af stað umræðu um hvort …
Kristinn Árni Hróbjartsson vill koma af stað umræðu um hvort endurhugsa ætti hlutverk Tækniþróunarsjóðs. Mynd/Kristinn Árni Hróbjartsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK