28 hrunmál enn í skoðun hjá saksóknara

Ólafur Þór Hauksson, fyrrverandi sérstakur saksóknari og núverandi héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, fyrrverandi sérstakur saksóknari og núverandi héraðssaksóknari. mbl.is/Styrmir Kári

Á starfstíma sínum frá 2009 til loka 2015 tók embætti sérstaks saksóknara 850 sakamál til meðferðar, en þar af eru svokölluð hrunmál rúmlega 200 talsins. Samtals eru 50 af þessum málum í ákærumeðferð, en það þýðir að búið er að gefa út ákæru eða að málið sé hjá saksóknara embættisins og að eftir eigi að taka ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út. Þá eru 6 af hrunmálunum enn í rannsókn. Þetta segir Ólafur Hauksson, fyrrum sérstakur saksóknari og núverandi héraðssaksóknari.

Horft um bak á tímamótum

Um áramótin var gerð breyting á saksóknaraembættum landsins og var sérstakur saksóknari lagður niður og í staðinn stofnað embætti héraðssaksóknara. Fluttust nokkur verkefni ríkissaksóknara yfir til nýja embættisins ásamt því að það tekur yfir flest verkefni sérstaks saksóknara. Við þessa breytingu er vert að staldra við og fara yfir fjölda mála sem embættið hafði í meðförum sínum frá stofnun þess árið 2009, eftir efnahagshrunið.

Ólafur segir að í heild séu málin 850. Þau skiptist þannig upp að rúmlega 200 þeirra séu það sem kallist hrunmál, en afgangurinn séu t.d. stærri efnahagsbrot, skattamál og mál þar sem embættið veitti ríkissaksóknara rannsóknaraðstoð, t.d. á meintum brotum lögreglumanna í starfi.

54 mál í bið eftir úrskurði Mannréttindadómstólsins

Af þessum 850 málum eru 23 mál sem enn bíða ákvörðunar um hvort skuli rannsaka. Þá eru 54 skattamál sem eru í bið vegna málsmeðferðar í Strassborg, en þar er átt við mál sem bíða úrskurðar Mannréttindadómstólsins í Strassborg í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar um hvort verið sé að refsa honum tvisvar fyrir sama brotið. Þá eru einnig þrjú mál í bið sem helgast af því að sakborningar eru erlendis og ekki hefur náðst í þá í langan tíma. Staðfestir Ólafur að flestir þeirra sem séu grunaðir í þeim málum séu erlendir ríkisborgarar.

6 hrunmál enn í rannsókn 

Eitt mál er að sögn Ólafs enn í greiningu þar sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort hefja eigi rannsókn, en slík forgreining er gerð í öllum tilfellum áður en formleg rannsókn hefst.

Skráð mál í rannsókn hjá embættinu í dag eru 54, en þar af eru hrunmál sex talsins. Málum sem var lokið án ákæru eru 458 í heild, en þar eru meðal annars mál sem voru felld niður, rannsókn var hætt eða mál voru sameinuð öðrum málum.

Aðalhitinn á 22 hrunmál í ákærumeðferð

Mál í ákærumeðferð eru samtals 229 talsins. Það eru þau mál sem hefur verið ákært í eða verið er að taka ákvörðun um hvort verði ákært í hjá saksóknara. Af þessum málum eru 50 svokölluð hrunmál og af þeim hefur verið ákært í 28 málum. Enn standa því eftir 22 hrunmál sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort ákært verði í og sex mál sem eru enn í rannsókn.

Ólafur segir að aðalhitinn sé á þessi 22 mál og að gert sé ráð fyrir að ákvörðun um þau liggi fyrir á fyrri hluta þessa árs. „Við viljum fara að fá línur í þetta fyrir mitt árið,“ segir hann og bætir við að rannsókn málanna sex sé á lokastigi. „Í sjálfu sér er ekki mikið eftir í rannsóknum. Það er búið að ná yfir heildina,“ segir Ólafur.

Til viðbótar við framangreind mál hefur embættið veitt ríkissaksóknara rannsóknaraðstoð í 28 málum í rannsókn gegn lögreglumönnum. Með þeim málum er heildarfjöldi mála því kominn í 850.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK