Niðurhalsveisla fylgir Netflix

Þetta blasir við þegar íslenskir neytendur skrá sig á Netflix …
Þetta blasir við þegar íslenskir neytendur skrá sig á Netflix og er aðeins brot af úrvalinu. Skjáskot

Áhorf á Netflix eykur mjög notkun gagnamagns og er fyrirtækið talið eiga nokkuð stóran þátt í niðurhalsaukningu á heimsvísu á síðustu árum. Ágætis viðmið er að áhorf í eina klukkustund kostar eitt gígabæt en áhorf í sama tíma í háskerpu kostar þrjú gígabæt. Þrátt fyrir að Netflix sé komið til Íslands er um erlent niðurhal að ræða.

Kristinn Pétusson, forstöðumaður sölu- og þjónustusviðs Hringdu, fagnar komu Netflix. „Þessu hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu,“ segir Kristinn og bætir við að fleiri kostir í sjónvarpsafþreyingu, eftir löglegum leiðum, standi nú neytendum til boða. 

Líkt og áður segir telst Netflix sem erlent gagnamagn og er kostnaðurinn af innlendu og erlendu niðurhali breytilegur eftir fjarskiptafyrirtækjum hér á landi. Kristinn segir langstærsta hluta viðskiptavina Hringdu vera með ótakmarkað gagnamagn og því ættu auknar vinsældir Netflix að hafa lítil áhrif á símreikning þeirra. 

„Þetta gerir okkur óháðari hinum símfyrirtækjunum,“ segir Kristinn. „Hingað til hafa bara Vodafone og Síminn verið að dreifa myndlyklum og reka dreifikerfi fyrir sjónavarp en núna getum við sagt að fyrir ákveðinn hóp neytenda séu myndlyklar orðnir óþarfi,“ segir Kristinn og vísar til þess að t.d. sé einnig hægt að horfa á RÚV í gegnum netið.

Jákvætt að fá Netflix upp á borðið

„Það er ekki eins og þetta sé nýr samkeppnisaðili,“ segir Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri markaðar og miðla hjá Símanum. „Þeir hafa verið hér lengi og eru orðnir töluvert stórir en við teljum okkur vel búna til þess að mæta þeim,“ segir hann og bætir við að allar breytingar á sjónvarpi Símans hafi verið gerðar til þess að undirbúa þetta.

Hann segir jákvætt að samkeppnin sé orðin opinber. Nú þurfi Netflix að standa skil á opinberum gjöldum og þýðingarkostnaði líkt og aðrir.

„Samkeppni snýst ekki lengur um línulegt sjónvarp líkt og Stöð 2, RÚV og SkáEinn. Þar er bara gærdagurinn. Við erum eftir að fá meiri samkeppni frá Google og það verður samkeppni frá Apple. Þá er Facebook að verða stærsta fjölmiðlaveita heims,“ segir Magnús. „Við þurfum bara að aðgreina okkur og vera annar valkostur.“

Magnús segir það vera staðreynd að gagnamagnsnotkun muni aukast við útbreiddari vinsældir efnisveitna á borð við Netflix.

Geta lifað saman góðu lífi

Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Vodafone, segir fyrirtækið hafa búist við innkomu Netflix á markaðinn um langan tíma og telur að efnisveitur Vodafone og Netflix geti báðar lifað góðu lífi. 

Hún bendir á að úrvalið sé ólíkt enda hafi Vodafone PLAY verið hannað með tilliti til þess að Netflix gæti komið til Íslands.

Þá vísar hún til þess að áætlað sé að um 25 þúsund íslenskir neytendur séu nú þegar með bandarísku útgáfu Netflix og bætir við að vinsældir Vodafone PLAY hafi samt sem áður vaxið frá því í fyrra.

Aðspurð um möguleg áhrif Netflix á internetnotkun Íslendinga segir Gunnhildur að reynsla Vodafone, og flestra um heim allan, sýni að Netflix auki mjög notkun gagnamagns. Þá ráðleggur hún viðskiptavinum sem fá sér Netflix að hafa samband við fyrirtækið til þess að hægt sé að velja hagkvæmustu tenginguna í samræmi við breytta notkun.

Frétt mbl.is: Samkeppnin frá Netflix þegar hér

Kristinn Pétursson forstöðumaður sölu- og þjónustusviðs Hringdu
Kristinn Pétursson forstöðumaður sölu- og þjónustusviðs Hringdu
Síminn segir jákvætt að fá samkeppnina upp á borðið.
Síminn segir jákvætt að fá samkeppnina upp á borðið.
Vodafone hefur búið sig undir komu Netflix.
Vodafone hefur búið sig undir komu Netflix. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK