Vilja hámarksverð á vatnsflöskur

mbl.is/Sigurður Jökull

Þar sem farþegar mega ekki taka með sér vatn að heiman í flugið þá er óverjandi að þeir geti ekki svalað þorsta sínum í flugstöðvum gegn sanngjarni þóknun að mati forsvarsmanna Evrópusambandsins. Um málið er fjallað á vefnum Túristi.is.

Vatnsflöskur reynast oft mun dýrari á flugvöllum en úti í bæ. Þessu vill Violeta Bulc, sem á sæti í framkvæmdastjórn ESB, breyta og vinnur nú að nýrri reglugerð sem tryggir farþegum á flughöfnum innan ESB-svæðisins hálfslítra vatnsflöskur sem ekki mega kosta meira en eina evru, um 140 krónur. 

Í fyrra ákvað Isavia að bregðast við fjölda kvartanna frá flugfarþegum og koma köldu vatni í vatnskrana flugvallarbyggingarinnar á Keflavíkurflugvelli svo fólk gæti fyllt á vatnsflöskur sínar. Áður hafði aðeins verið hægt að fá volgt vatn úr krönunum.

Í frétt Túrista kemur fram að sex af þeim níu flugfélögum sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli í vetur rukka fyrir allar veitingar um borð, þar á meðal vatnið. Kosta vatnsflöskurnar á bilinu 250 til 390 krónur.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir