Íslandsbanki skiptir út kreditkortum

Íslandsbanki hefur skipt úr Visa í Mastercard.
Íslandsbanki hefur skipt úr Visa í Mastercard. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsbanki er að skipta út öllum Visa kreditkortum viðskiptavina í Mastarcard. Með því að virkja nýtt kort gefa viðskiptavinir Íslandsbanka heimild til þess að færa boðgreiðslur og áskriftir milli korta. Ekki er þó hægt að ábyrgjast að allar fastar greiðslur færist yfir.

Íslandsbanki hefur verið í samstarfi við VISA Ísland og síðar Valitor, frá árinu 1985. Að sögn Eddu Hermannsdóttur, upplýsingafulltrúa Íslandsbanka, var viðskiptavinum tilkynnt um fyrirhugaðar breytingar í október 2014. Eftir breytingarnar geta viðskiptavinir Íslandsbanka ekki fengið útgefið Visa kort hjá bankanum. Einungis Mastercard.  

Mastercard orðið útbreiddara

Aðspurð segir Edda að tvær meginástæður hafi verið fyrir breytingunni. Í fyrsta lagi sé þetta liður í að einfalda vöruframboð bankans.

Talið var að með MasterCard væru viðskiptavinir Íslandsbanka, og bankinn sjálfur, betur í stakk búin til þess að taka þátt í þeirri þróun og breytingum sem framundan eru í kortaheiminum.

Í öðru lagi segir Edda að móttaka MasterCard á heimsvísu sé orðin mun betri í dag en áður fyrr. Er nú er svo komið að jafn margir söluaðilar taka á móti MasterCard og Visa að sögn Eddu.

Debetkortunum var fyrst skipt út en það var gert í ársbyrjun 2015 og tók ferlið marga mánuði. Byrjað var að skipta út kreditkortum í október 2015. Skiptingin er enn í gangi og mun þessu vonandi ljúka næsta haust að sögn Eddu. 

Fylgjast með boðgreiðslum og áskriftum

Korthafar eru oft með ýmsar greiðslur á kortum sínum og segir Edda að bankinn geti ekki ábyrgst að allar fastar greiðslur flytjist sjálfkrafa yfir á nýja kortið.

Bankinn mun þó eftir bestu getu reyna að tryggja að allar áskriftir sem eiga uppruna sinn í Bandaríkjunum, færist yfir á nýja kortið.

Aðrar fastar greiðslur og áskriftir þurfa korthafar að færa sjálfir.

Þá þurfa handhafar fyrirframgreiddra korta að færa boðgreiðslur yfir á nýja MasterCard kortið áður en eldra korti er lokað.

Íslandsbanki biður korthafa um að fylgjast vel með boðgreiðslum sínum og áskriftum, til að tryggja að allt færist yfir á nýja kortið.

Edda segir engan kostnað fyrir viðskiptavini fylgja breytingunum en hins vegar felst einhver kostnaður fyrir bankann í þessu. Kostnaðurinn felst þá helst í útskiptingu á sjálfum kortunum, IT vinnu og svo framvegis.

mbl.isÞorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir