„Kosningaréttur ekki tekinn af eftir geðþótta“

Ásta Rut Jónasdóttir, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna.
Ásta Rut Jónasdóttir, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Ásta Rut Jónasdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir að kosningaréttur verði ekki tekin af mönnum nema með skýrum lagaheimildum. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að hún fari fram á ógildingu á kosningu til stjórnar lífeyrissjóðsins.

Í bréfi sem lögmaður Ástu hefur sent stjórn VR, kemur fram að verulegir annmarkar hafi verið á framkvæmd kosninga til stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna sem fram fór í vikunni og þar af leiðandi er kosningin markleysa eða að minnsta kosti ógildanleg. Farið er fram á að kosningin verði endurtekin og fari fram í samræmi við þau lög og reglur sem um hana gilda.

Ásta, sem verið hefur stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna undanfarin þrjú ár, fékk ekki kosningu í aðalstjórn.

 Í bréfinu kemur fram að framkvæmdastjóri VR, Stefán Sveinbjörnsson, hafi 18. janúar sent bréf til umsækjanda um stjórnarsæti í lífeyrissjóðnum, þar sem fjallað er í sérstökum kafla undir heitinu „jafnræði“ um takmarkanir á kynningu umsækjenda á lokuðum síðum trúnaðarráðs á samskiptamiðlum. Þar segir orðrétt: „Eins er rétt að taka fram að stjórnar- og trúnaðarráðsmenn, ef þeir eru meðal umsækjenda, eru vanhæfir til að taka þátt í atkvæðagreiðslu stjórnar og trúnaðarráðs.“

 Í bréfi Helga segir að í umræddri fullyrðingu sé hvorki vitnað til laga né reglna sem grundvallar þess að umsækjendur missi atkvæðisrétt við það að bjóða sig fram og það sé einkennilegt að fjallað sé um það undir merkjum jafnræðis. Þá segir að það að svipta einstakling atkvæðisrétti við það eitt að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa innan félags sé fyrst og fremst brot á slíku jafnræði.

Ásta hefur sent tilkynningu á fjölmiðla vegna málsins, þar sem hún segir að þar sem bréfið hafi ratað í fjölmiðla þá sé rétt að árétta að kosningaréttur þeirra sem hann hafi sé ekki af þeim tekinn nema með skýrum lagaheimildum.

„Kosningaréttur er mikilvægur grunnréttur og ekki tekinn af eftir geðþótta enda afar óheppilegt ef hægt sé að kippa slíkum réttu úr sambandi án skýrra heimilda.

Að öðru leyti mun ég ekki tjá mig um þetta mál við fjölmiðla,“ segir Ásta.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK