Mánaðalager af kommóðum hverfur

Kommóðurnar eru sambærilegar í útliti.
Kommóðurnar eru sambærilegar í útliti.

Margra mánaða lager af kommóðum seldist upp á einum degi þegar fréttir bárust af verðstríði milli IKEA og Rúmfatalagersins. Rúmfatalagerinn segist fullfær um að halda orrustunni áfram til lengdar.

Líkt og mbl greindi frá á dögunum hefur fyrrnefnt verðstríð staðið yfir um nokkurt skeið og hefur verðið lækkað um allt að 85 prósent. Sama dag og fréttin birtist lækkaði Rúmfatalagerinn verðið á sínum fjögurra skúffu kommóðum niður í 3.590 og þar með niður fyrir verðið hjá IKEA sem nam 3.990 krónum.

Frétt mbl.is: Verðstríð: Kommóður lækka um 85%

Í kjölfarið seldist lagerinn upp hjá IKEA og Rúmfatalagernum. „Hér fylltist allt af fólki og gámurinn fór samdægurs,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, og bætir við að fimm til sex hundruð stykki hafi selst á einum degi. „Fólk fer líka að hamstra og við settum engar kvaðir á það. Það er ekki okkar hlutverk að segja fólki hversu mörg stykki það má kaupa.“

Ný sending barst IKEA í morgun og hafði verðið á sömu kommóðum þá verið lækkað niður í 3.290 krónur. „Rúmfatalagerinn lækkaði sín verð eftir umfjöllunina en við brugðumst við eins og við gerum í svona tilvikum,“ segir Þórarinn. Verðstríðinu virðist þá ekki lokið þar sem Rúmfatalagerinn hefur nú einnig lækkað verðið í 3.290 krónur.

Í sendingunni voru um fimm til sjö hundruð stykki og seldust þau einnig upp samdægurs. 

„Við munum halda þessu áfram eins lengi og þörf er á,“ segir Þórarinn. „Þetta er órjúfanlegur hluti af rekstrarmódeli IKEA.“

Koma einnig frá stóru batteríi

„Við getum alveg haldið þessu til streitu,“ segir Bjarki Heiðar Beck Brynjarsson, markaðsstjóri Rúmfatalagersins í samtali við mbl. „Við komum einnig frá stóru batterí, JYSK,“ segir hann.

Bjarki segir söluna hafa verið gríðarlega og bætir við að kommóðurnar hafi selst upp og verið ófáanlegar í einhvern tíma. Þær séu hins vegar komnar aftur í verslanir.

Verkfall hefur áhrif

Allt stefn­ir í að verk­fall bresti á hjá vél­stjór­um og skip­stjórn­end­um á kaup­skip­um í milli­landa­sigl­ing­um á miðnætti í kvöld. Verk­fallið stoppar inn- og út­flutn­ing og segir Þórarinn að áhrifa þess muni vitanlega gæta hjá IKEA. Hann bendir á að næsta sending muni þá ekki berast fyrr en að því loknu.

Rúmfatalagerinn segist hafa úthald.
Rúmfatalagerinn segist hafa úthald. mbl.is/Friðrik

 

mbl.is/Gísli Sigurðsson
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir