166 milljarða krafa ESÍ viðurkennd

mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að viðurkenna bæri tæplega 166 milljarða kröfu Eignasafns Seðlabanka Íslands sem lýst var við slitameðferð SPB hf. (Sparisjóðsbankans/Icebank) sem almenna kröfu. Málið snýst um lánveitingar Seðlabankans í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. 

Fram kemur í dómsorði að ekki verði séð að viðskiptin sem deilt sé um hafi stofnast fyrir frumkvæði Seðlabankans eða fjármálaráðuneytisins. Þá beri að líta til þess að til tryggingar greiðslu skuldarinnar hafi verið sett veð sem á þeim tíma hafi haft markaðsverðmæti umfram þá skuldbindingu sem tryggja hafi átt og útgefendur þeirra haft lánshæfismatseinkunn sem verið hafi talsvert hærri en reglur bankans hafi gert lágmarkskröfu um.

„Eru þegar af þessum ástæðum ekki fyrir hendi skilyrði til að rifta umræddum ráðstöfunum á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991, enda ekki að sjá að þegar þær hafi átt sér stað hafi varnaraðili verið orðinn ógjaldfær eða hafi orðið það vegna ráðstafananna. Þá verður ekki séð að Seðlabanki Íslands hafi verið sá sem haft hafi hag af umræddum ráðstöfunum eins og skilyrði sé samkvæmt ákvæðinu. Kemur þegar af framangreindum ástæðum ekki til greina að beita tilvitnaðri riftunarheimild,“ segir ennfremur.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir