Fjórar Kársnestillögur valdar áfram

Tillögurnar fjórar.
Tillögurnar fjórar. Mynd/Kópavogur

Fjórar tillögur hafa verið valdar til áframhaldandi þátttöku í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni um Kársnes í Kópavogi. Höfundar fá 300.000 norskar krónur, andvirði um 4,5 milljóna íslenskra króna til að vinna tillögur sínar áfram.

Myndir og myndbönd af tillögunum má skoða á hér en að neðan er rökstuðningur dómnefndarinnar fyrir tillögunum fjórum:

Sólborg

Tillagan felur í sér raunhæfa áætlun í áföngum um þróun á svæðinu og tímabundna nýtingu á fyrri stigum með lausnum sem eru aðlaðandi og munu ýta undir frekari þróun. Fjölbreytnin sem áætlunin felur í sér mun efla svæðið og stuðla að blönduðu samfélagi. Tillögur að tengingum eru áþreifanlegar þ.e. sporvagn, brú og hjólreiðastígar, en einnig skapa þær tilfinningu fyrir sérstöðu Kársness. Tillagan gerir Kársnes að eftirminnilegum stað innan höfuðborgarsvæðisins með einstakri starfsemi sem vert er að leita uppi. Tillagan hefur sterka samfélagslega nálgun með staðsetningu almenningsgróðurhúss miðsvæðis og áætlun um formgerðarflokkun húsa sem myndi stuðla að góðri samfélagslegri aðlögun.

Spot on

Þessi tillaga er djörf í þéttbýlisnálgun sinni og landfyllingum. Mikilvægir hlutar hennar eru staðsettir á útsjónarsaman hátt með tilliti til brúa sem tengja svæðið í tvær áttir. Spurningar vakna varðandi mögulegt flæði sjávar inn og út úr vogunum og einnig mögulega auknum umferðarþunga inn og út úr svæðinu meðfram Kársnesi. Sundlaugin í miðju víkurinnar gæti verið frábær tenging á milli bæjarfélaganna tveggja og sterkur hvati að áframhaldandi þróun þeirra. Staðsetning á siglingaklúbbi hinum megin við brúnna er áhugaverð og kallar á frekari samvinnu milli Kópavogs og Reykjavíkur.

Evolve Kársnes

Áætlunin er lögð fram í formi sögu sem lýsir því hvernig tengingar við Kársnes myndu gera ungum einstaklingi betur kleift að njóta þess sem svæðið býður upp á. Sagan leggur ríka áherslu á sjálfbærni og umhverfislega þætti. Þessi tillaga felur í sér áætlun um að halda ákveðnum drifkröftum fyrir þróun þéttbýlis opnum. Í stað þess að skapa rammaáætlun fyrir Kársnes felur tillagan í sér skipulag til lengri tíma til að ná fram tengingum og til að skapa möguleika á kraftmiklu sjálfbæru samfélagi á Kársnesi. Brú á milli Kópavogs og Reykjavíkur er mikilvægur þáttur í þessari tillögu að endurskipulagningu Kársness. Hugmyndin um tímabundna flotbrú í upphafi endurskipulagningar svæðisins gæti stuðlað að jákvæðum breytingum á svæðinu.

Harbouring life

Tillagan byggir á skýrum markmiðum og leggur til hagnýtar lausnir. Hún tekur mið af háskólunum tveimur sem eru Reykjavíkurmegin með því að leggja til nýsköpunargarð á nyrðri enda Kársness sem hluta af áætluninni. Áætlun um þróun í áföngum er lögð til sem mun umbreyta svæðinu með því að halda í núverandi götuskipulag og iðnaðarmannvirki. Nýta á sjónlínur og útsjónarsama staðsetningu ákveðinnar starfsemi sem ákveðið verkfæri í áætluninni. Tillagan skapar kraftmikið hverfi með fjölbreytta starfsemi, verslun á ákveðnum mikilvægum stöðum, svæði með léttan iðnað og viðskiptastarfsemi sem allt tengist hvort öðru vel. Tillagan tekur mið af því þéttbýli sem nú þegar er fyrir hendi á Kársnesi. Með skynsamlegu og úthugsuðu skipulagi hefur svæðið möguleika á að verða líflegt og þróttmikið með fjölbreytta nýtingu

Frá fundi í Gerðarsafni þar sem tillögurnar voru kynntar.
Frá fundi í Gerðarsafni þar sem tillögurnar voru kynntar.

Kársnes í Kópavogi er eitt af sex svæðum sem valin voru til þátttöku í kepninni sem nefnist Nordic Built Cities Challenge.

Þar er viðfangsefnið að bæta tengingar milli þróunarsvæðisins og annarra hluta höfuðborgarsvæðisins og auka þannig sjálfbærni byggðarinnar. Með bættum tengingum við áhugaverða staði sem eru skammt undan er talið að hægt sé að skapa tækifæri bæði fyrir íbúa á Kársnesi og á höfuðborgarsvæðinu öllu.

Auk Kársness voru valin til þátttöku Sege Park í Malmö, Tryggve Lies Plass í Osló, Hans Tavsens Park og Korsgade í Kaupmannahöfn, Runavík í Færeyjum og Kera iðnaðarhverfið í Espoo í Finnlandi. Áskoranir á svæðunum eru af ýmsum toga, frá aðlögun að loftslagsbreytingum til vistvænna samgangna og endurnýtingar efnis úr bæjarrýminu.

Skipuð hefur verið dómnefnd á hverjum stað. Íslensku dómnefndina skipa Guðný Björk Eydal, Hrafnkell Proppé, Karl Benediktsson, Þór Sigfússon og Þóra Kjarval.

Dómnefndin valdi þessar fjórar tillögur úr fyrra þrepi til þátttöku í seinna þrepi. Höfundar tillagnanna sem urðu fyrir valinu fá 300.000 norskar krónur, andvirði um 4,5 milljóna íslenskra króna til að vinna þær áfram. Að loknu seinna þrepi er ein tillaga valin og hún verðlaunuð með 250.000 norskum krónum, andvirði tæpra 3,8 milljóna króna .

Nordic Innovation hyggst einnig verðlauna tillögurnar sem valdar eru í öllum keppnunum og hefur til þess 1,2 milljónir norskra króna, andvirði rúmlega 18 milljóna króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir