Staðfestir úrskurð um verðsamráð

Horft yfir olíutanka í Örfirisey.
Horft yfir olíutanka í Örfirisey. mbl.is/RAX

Hæstiréttur hefur sýknað Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið af kröfum Olíuverslunar Íslands, Skeljungs og Kers sem fóru fram á ógildingu áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem úrskurðaði að félögin hefðu haft með sér ólögmætt verðsamráð með olíuvörur hér á landi. Hefur úrskurður þar með verið endanlega staðfestur.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður staðfest úrskurðinn með dómum 15. og 19. janúar sl. Er félögunum gert að greiða samtals 1,5 milljarð króna í sekt.

Upphaf málsins á rætur að rekja til ársins 2001 þegar Samkeppnisstofnun hóf í desember það ár rannsókn á ætluðu ólögmætu samráði olíufélaganna sem hefði brotið í bága við 10. gr. þágildandi samkeppnislaga.

Á grundvelli rannsóknarinnar tók samkeppnisráð ákvörðun í október 2004, þar sem komist var að niðurstöðu um að félögin hefðu brotið gegn fyrrgreindu ákvæði með yfirgripsmiklu og óslitnu samráði með olíuvörur hér á landi á tímabilinu 1993 til 2001 og voru félögunum gerðar sektir.

Félögin skutu ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp úrskurð í málinu í janúar 2005 þar sem staðfestar voru allar helstu niðurstöður í ákvörðun samkeppnisráðs, en félögunum voru þó gerðar lægri sektir.

Félögin höfðuðu mál til ógildingar á framangreindum úrskurði, en til vara niðurfellingar og til þrautavara lækkunar sektar, sem þar var ákveðin, svo og til endurgreiðslu fjárhæðar hennar.

Öllum málsástæðum félaganna hafnað

Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans í Hæstarétti, var öllum málsástæðum félaganna til stuðnings framangreindum kröfum hafnað. Ekki var fallist á að 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, um bann við endurtekinni málsmeðferð til úrlausnar um refsiverða háttsemi, hafi staðið því í vegi að samkeppnisyfirvöld héldu áfram rannsókn sinni á samstarfi olíufélaganna eftir að rannsókn ríkislögreglustjóra á hinu ólögmæta samráði hófst. Var sérstaklega vísað til þess að félögin hefðu hvorki verið ákærð né sakfelld fyrir brot á 10. gr. samkeppnislaga þegar samkeppnisyfirvöld tóku ákvörðun í málinu.

Þá var ekki fallist á að málsmeðferð samkeppnisyfirvalda hafi brotið gegn andmælarétti félaganna samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Taldi dómurinn að Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð hefðu gert það sem í þeirra valdi stóð til þess að gefa félögunum færi á því að tjá sig um efni málsins áður en ákvörðun í því var tekin.

Þá hefðu félögin ekki útskýrt hvernig upplýsingar, sem starfsmenn þess bjuggu yfir og gátu varpað sök á þá eða félagið við samhliða lögreglurannsókn, hefðu verið félögunum nauðsynlegar til þess að andmæla málavöxtum eins og Samkeppnisstofnun lýsti þeim.

Dómurinn hafnaði einnig þeirri málsástæðu félaganna að brot þeirra væru fyrnd. Taldi dómurinn að samráð olíufélaganna hefði falið í sér samfellda brotastarfsemi sem hafi ekki lokið fyrr en í desember 2001. Á því tímamarki hafi fyrning á broti félaganna hafist og hefði fimm ára fyrningarfrestur 5. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga því ekki verið liðinn þegar samkeppnisráð tók ákvörðun sína í október 2004.

Sýnt fram á sannanlegan ábata af hinu ólögmæta samráði

Þá taldi dómurinn að samkeppnisyfirvöld hefðu sýnt fram á með viðhlítandi hætti að olíufélögin hefðu haft sannanlegan ábata af hinu ólögmæta samráði þannig að fullnægt hafi verið skilyrði 2. mgr. 52. gr. þágildandi samkeppnislaga til þess að ákvarða sektir allt að 10% af veltu félaganna vegna síðastliðins almanaksárs af hlutaðeigandi starfsemi.

Loks var málsástæðum félaganna um brot á jafnræðis- og meðalhófsreglum hafnað. Í ljósi framangreinds voru Samkeppniseftirlit og ríkið sýknuð af kröfum félaganna. 

„Hagnast sem mest á kostnað neytenda“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK