„Starfsmaður MAST segir ósatt“

Frumkvöðlarnir Stefán Atli Thoroddsen og Búi Bjarmar Aðalsteinsson. Þeir eiga ...
Frumkvöðlarnir Stefán Atli Thoroddsen og Búi Bjarmar Aðalsteinsson. Þeir eiga fyrirtækið Crowbar Protein ásamt Frosta Gnarr. Ljósmynd/Arion banki

Stofnendur Crowbar Protain, sem framleiðir skordýrasnakkið Jungle Bar, saka starfsmann Matvælastofnunar um að hafa sagt ósatt í viðtali um vöruna.

Í samtali við Vísi var Helga Pálsdóttir hjá Matvælastofnun spurð hvort selja mætti matvæli sem innihalda skordýr. Hún sagði stöðuna vera þannig í Evrópu að hvergi hefði verið sótt um leyfi fyrir neinu skordýri og að skordýr væru bara ekki leyfð á neytendamarkaði. 

Eigendurnir, Búi Bjarmar Aðalsteinsson, Stefán Atli Thoroddsen og Frosti Gnarr, segja þessa staðhæfingu ekki sanna. 

„Helga er sérfræðingur MAST um reglugerðina um nýfæði og ætti því að vita betur,“ segja þeir og bæta við að mjög nýlega hafi þessi sami starfsmaður Matvælastofnunar sent tölvupóst til Crowbar Protein þar sem hún tilkynnti að þrjú Evrópuríki hefðu sérstaklega leyft skordýr til manneldis; Belgía, Holland og Bretland.

„Á rúmri viku hafði hún semsagt gleymt því að þessi ríki leyfðu sölu á skordýrum til manneldis og tilkynnir í fjölmiðlum að skordýr séu ekki leyfð á evrópskum neytendamarkaði.“

Sendi þeim lista yfir leyfileg skordýr

„Í tölvupóstinum sem starfsmaðurinn sendi afritaði hún m.a. lista yfir leyfileg skordýr í Belgíu. Jungle Bar inniheldur krybbur af tegundinni Banded cricket, en sú tegund er einmitt inni á listanum. Því er meira að segja fordæmi fyrir því að skordýrið sem við notum sé leyft til sölu í Evrópu. Þrátt fyrir það hefur okkur verið bannað að dreifa og selja vöruna okkar á Íslandi,“ segja þeir.

Þá segjast þeir geta bent á fjölmörg dæmi þess að matvæli sem innihalda skordýr séu seld í Evrópu og þá ekki bara í Bretlandi, Belgíu og Hollandi.

Farga á eigin kostnað eða senda úr landi

Á laugardag segjast þeir hafa fengið símtal frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar sem tilkynnti eigendunum að annaðhvort þyrftu þeir að láta farga Jungle Bar á eigin kostnað eða koma vörunni úr landi. „Aðspurt gat eftirlitið þó ekki lánað fyrir sendingarkostnaðinum.“

Þeir segja ástandið óþolandi. „Sérstaklega þegar við lítum til þess sem er raunverulega að gerast í Evrópu. Skordýr eru á boðstólum út um allt og þar að auki hafa Sameinuðu þjóðirnar talað fyrir því að Vesturlandabúar ættu að borða skordýr í meira mæli,“ segja eigendur Crowbar Protein og benda á skýrslu FAO um málefnið.

„Með Jungle Bar höfum við verið að reyna að svara þessu kalli heimsins en komum að lokuðum dyrum hér heima.“

Þeir benda á að stór matvöruverslun í Hollandi hafi selt skordýr um nokkuð langt skeið auk þess sem aðrir í Belgíu og Bretlandi séu að gera slíkt hið sama.

Stefán Atli Thoroddsen, bauð upp á Jungle bar á UT ...
Stefán Atli Thoroddsen, bauð upp á Jungle bar á UT messunni um helgina.

Óskiljanleg vinnubrögð

Búi, Stefán og Frosti segja rúsínuna í pylsuendanum vera að finna í grein Matvælastofnunar frá október 2015, tveimur vikum áður en nýfæðisreglugerðin var sett á laggirnar og þremur vikum áður en fyrirtæki þeirra framleiddi og sendi Jungle Bar til Íslands.

Þar segir að Ísland hafi enn ekki innleitt reglugerð Evrópusambandsins nr. 258/97 og því séu engar sérstakar reglur um nýfæði í gildi á Íslandi. Þrátt fyrir það þurfi skordýr og annað nýfæði sem ætlað er sem matvæli að uppfylla skilyrði matvælalaga og gildandi reglugerða á sama hátt og önnur almenn matvæli.

„Það eru óskiljanleg vinnubrögð MAST að senda þessa grein út nokkrum dögum áður en þessi 18 ára gamla reglugerð var innleidd. Við hvetjum ráðamenn þjóðarinnar sem og MAST til þess að stuðla að neyslu heilnæmra og umhverfisvænna matvæla í stað þess að gerast erindrekar úrelds regluverks Evrópusambandsins,“ segja eigendur Crowbar Protein.

„Ekkert stendur í veginum“

Líkt og mbl hefur áður greint frá var sala á orkustykkinu Jungle Bar hafin í janúar í verslunum Hagkaupa.

Fjórum dögum síðar var varan tekin af markaði.

„Nú er Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar að hrekja okkur og vöruna úr landi undir áhrifum ráðgjafar Matvælastofnunar vegna innleiðingar á nýfæðisreglugerð Evrópusambandsins,“ segja eigendur.

„Geta má þess að við undirbúning framleiðslu vörunar höfðum við samband við MAST til þess að ganga úr skugga um hvort selja mætti vöruna hér heima. Á þeim tíma svöruðu þeir því að það stæði ekkert í vegi fyrir því nema almenn viðmið um heilnæm matvæli. Það var stuttu áður en ofangreind reglugerð var tekin upp.“

Krybburn­ar í Jungle bar eru ræktaðar af krybbu­bónda í Kan­ada sem hef­ur leyfi frá rík­inu til skor­dýra­fram­leiðslu til mann­eld­is. 

Í samtali við mbl.is segir Helga Pálsdóttir hjá Matvælastofnun að mun­ur sé á því hvort skor­dýr eru seld í heilu lagi eða hvort þau séu unn­in og blönduð öðrum mat­væl­um. Slík­ar vör­ur, líkt og Jungle Bar, séu hvergi leyfðar í aðild­ar­ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins.

Frétt mbl.is: Munur á heilum og unnum skordýrum

Frétt mbl.is: Skordýrasnakk í bandarískar búðir

Frétt mbl.is: Skordýrasnakk tekið úr hillum

Verkefnið komst á laggirnar með tilstuðlan Icelandic Startups í Startup ...
Verkefnið komst á laggirnar með tilstuðlan Icelandic Startups í Startup Reykjavík og með stuðningi frá Tækniþróunarsjóði og hönnunarsjóði. Mynd/Axel Sigurðsson
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir