Heimshótel selt á 3,6 milljarða

Radisson Blu 1919
Radisson Blu 1919 Mynd/Radisson Blu 1919

Eik fasteignafélag hefur undirritað kaupsamning um kap á Heimshótelum. Umsamið kaupverð er 3,6 milljarðar króna.

Kaupverð miðast þó við að við afhendingu sé félagið og Hótel 1919 ehf. skuldlaus og að til staðar séu í félaginu 110 milljónir króna, sem munu nýtast til betrumbóta á hótelinu. Kaupsamningurinn er háður fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, Seðlabanka Íslands, þar sem seljandi er erlendur aðili, og Rezidor Hotels ApS.

Fasteignirnar sem um ræðir og eru í eigu Heimshótela ehf. eru Pósthússtræti 2, Tryggvagata 28 og Hafnarstræti 9-11 í Reykjavík.

Allt hlutafé í Hóteli 1919 ehf., sem er 100% í eigu Heimshótela ehf., er hluti af kaupverðinu. Hótel 1919 ehf. er með langtímarekstrarsamning við alþjóðlegu hótelkeðjuna Rezidor Hotels ApS um rekstur hótelsins undir nafni Radisson Blu. 

Rekstrarsamningurinn felur það í sér að Rezidor Hotels stýrir og hefur eftirlit með rekstri hótelsins gegn tiltekinni þóknun en hagnaður félagsins rennur að öðru leyti til Eikar. Rekstrarsamningur af þessu tagi er lítt þekktur meðal fasteignaeigenda á Íslandi en er algengt rekstrarform meðal fasteignaeigenda erlendis.

Fasteignirnar eru tæpar sex þúsund fermetrar að stærð og staðsettar í hjarta Reykjavíkur. Þar sem tekjur Heimshótela ehf. ráðast m.a. af verðlagningu hótelherbergja og herbergisnýtingu Hótels 1919 ehf. munu sveiflur verða á EBITDA félagsins. Áætlað er að „yield“ kaupanna  verði um átta prósent við afhendingu.

Kaupin verða fjármögnuð með lántöku og handbæru fé félagsins. Félagið mun birta rekstrarspá síðar í febrúar fyrir árið 2016 þar sem tekið verður tillit til tekna vegna Heimshótela.

Frétt mbl.is: Andri selur Heimshótel

Frétt mbl.is: Eik gerir tilboð í Heimshótel

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir