Landsbankinn svarar vegna Borgunar

Landsbankinn hefur svarað bréfi Bankasýslu ríkisins vegna sölu bankans á eignarhluti sínum í Borgun með 126 blaðsíðna bréfi. 

Landsbankinn segist hafa vitað valréttur væri fyrir hendi. Hins vegar hafi bankinn ekki búið yfir upplýsingum um það hvort eða hvenær Visa Inc. myndi neyta kaupréttarins eða Visa Europe söluréttarins enda hafi það ekki legið fyrir fyrr en 2. nóvember 2015 þegar upplýst var um viðskiptin.

Það hafi hins vegar verið skilningur Landsbankans, vegna sölulegra tengsla Valitor við Visa Europe og yfirburða markaðshlutdeildar félagsins í útgáfu Visa-korta að Valitor, eitt íslenskra kortafélaga, ætti tilkall til slíks ávinnings í kjölfar hugsanlegrar nýtingar valréttarins ef til hans kæmi.

Bankinn áréttar svo í bréfi sínu að hann hafi ekki haft vitneskju um að Borgun kynni að eiga rétt til sambærilegra greiðslna við nýtingu valréttarins. Af þeirri ástæðu hafi ekki verið samið um það sérstaklega þegar eignarhlutur bankans í Borgun var seldur. Ástæðan fyrir þessum skilningi Landsbankans hafi jafnframt verið sú að þjónusta sem Landsbankinn hafi keypt af Borgun tengdist Mastercard-kortum en ekki VISA-kortaviðskiptum. Fyrir vikið hafi ekki verið tilefni til þess að ætla að Borgun ætti rétt til greiðslna vegna nýtingar valréttarins. Eftir því sem næst hafi verið komist, hafi vitneskja um annað ekki verið á almennu vitorði.

Segja enga kröfu um almennt útboð hafa komið frá löggjafa

Í svari bankans er einnig tekið fram að engin almenn og ófrávíkjanleg krafa hafi verið gerð af hálfu löggjafans eða eftirlitsyfirvalda til þess að fara í almennt söluútboð, auglýsa eignir á markaði eða hafa sölumeðferð með öðrum hætti opna. 

„Til marks um þetta beindi Samkeppniseftirlitið því til viðskiptabanka í eigu ríkisins að leitast við að hafa ferlið opið og gagnsætt eftir því sem kostur væri,“ segir í svari bankans.

Þá segist bankinn hafa dregið lærdóm af þeirri umræðu sem orðið hefur í kjölfar sölu bankans á hlut sínum í Borgun og breytt stefnu sinni og verklagi til samræmis við hana.

Sjá bréfið í heild sinni á vef Landsbankans.

Photo: Júlíus
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir