„Það verður ekki alltaf þessi veisla í ferðaþjónustunni“

Ólafur Torfason, forstjóri Íslandshótela.
Ólafur Torfason, forstjóri Íslandshótela. mbl.is/Eggert

Ólafur Torfason, stofnandi Íslandshótela, segir himinháar leigukröfur hafa í för með sér að lítið megi út af bera hjá mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum í miðborg Reykjavíkur ef ekki eigi illa að fara. Þegar lægðin kemur í greininni muni mörg fyrirtækin ekki þola mótvindinn.

„Verðið er nú uppi í rjáfri. Það eru því miður nokkur dæmi þess að menn eru komnir upp í skýin,“ segir Ólafur sem telur að margir fasteignaeigendur í miðborginni setji fram óeðlilegar kröfur um leiguverð.

„Þetta er orðið svo þanið að ef það kemur einhver smá mótvindur er dæmið búið [hjá mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum]. Þeir eru að keyra upp leiguverð og annað svo hátt að þeir eru orðnir firrtir í verðlagningu í húsnæði. Því miður.

Það verður ekki alltaf þessi veisla í ferðaþjónustunni. Menn geta gengið út frá því sem vísu að það mun einhvern tímann slá í bakseglin og að við verðum að taka á okkur mótvind. Það hlýtur að vera. Það hefur aldrei gerst nokkurs staðar að þetta vari endalaust.“

Jaðarinn orðinn alltof dýr

Ólafur er einn reyndast hótelmaður landsins. Hann hóf reksturinn í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar og hefur því séð hæðir og lægðir í ferðaþjónustunni.

Hann segir að næst þegar greinin upplifi mótvind muni það bitna fyrst á hótelum sem eru á jaðri miðborgarinnar. „Það er farið að verðleggja jaðarrýmin eins og miðborg Reykjavíkur.“

Hafi hliðsjón af innkomu

„Menn halda að ferðaþjónustan geti borgað himinháa leigu. Jú, það getur vel verið að svo sé í augnablikinu. Það má hins vegar ekki mikið út af bera til að það skapist veruleg vandræði. Menn ættu að gæta sín á að hafa leigusamninga sína í þá veru að það fari aldrei meira en ákveðin prósenta af innkomunni í húsaleiguna,“ segir Ólafur.

Máli sínu til stuðnings tekur hann dæmi af verðhugmyndum sem leigusalar kynntu fulltrúum Íslandshótela nýverið. Þar hafi leigusalar rætt um að húsaleiga fyrir hvert hótelherbergi yrði tvær og hálf milljón á ári, eða rúmlega 200 þúsund á mánuði.

Mergsjúga leigutaka

Raunhæft er að miða við að þrjú hótelherbergi þurfi 100 fermetra af gólffleti og samsvarar leigan því að 100 fermetra íbúð í umræddu húsnæði væri leigð á yfir 600 hundruð þúsund krónur á mánuði.

Ólafur segir fjárfesta, en ekki fólk í ferðaþjónustu, fá arðinn af slíkri verðlagningu leiguhúsnæðis.

„Það fer dálítið í taugarnar á mér þegar menn rjúka til og breyta öllu í hótel og svo eru strákarnir teknir sem taka þetta á leigu og alveg mergsognir. Mergsognir!“ segir Ólafur með áherslu.

„Þá sitja einhverjir gaurar feitir að þessu. Þetta eru menn sem ná í peninga og eignir en eiga ekkert skylt við sjálfa ferðaþjónustuna. Ég hef áhyggjur af þessu. Þessu er ungað út um allt. Þeim mun meiri verður vinnan ef á móti blæs einhvern tímann, sem mun gerast. Það mun alveg örugglega gera það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK