Hvað er að gerast í Breiðholtinu?

Mikið hefur verið gert fyrir Breiðholtið á liðnum árum. Það …
Mikið hefur verið gert fyrir Breiðholtið á liðnum árum. Það ásamt hagtæðu verði hefur skilað sér í aukinni eftirspurn segir formaður Félags fasteignasala. Þórður Arnar Þórðarson

Fasteignaverð í Breiðholti hefur hækkað mest á liðnu ári eða um tæp sextán prósent og eru ýmsar skýringar taldar vera á því. „Á liðnum árum hefur ekki verið mikil eftirspurn eftir íbúðum í hverfinu en það hefur breyst mikið að undanförnu,“ segir formaður Félags fasteignasala.

Líkt og mbl greindi frá fyrir helgi var meðalkaupverð seldra fasteigna í fjölbýli í Breiðholtinu, 111 Reykjavík, 15,9 prósentum hærra á fjórða ársfjórðungi 2015 en það var á fjórða ársfjórðungi 2014.

Samkvæmt samantekt Þjóðskrár Íslands, sem gerð var að beiðni Morgunblaðsins, er það hlutfallslega mesta hækkun nafnverðs í sex völdum póstnúmerum í borginni.

Frétt mbl.is: Mest hækkun í Breiðholti

Ingibjörg Þórðardóttir, formaður félags fasteignasala, segir íbúðaverð í Breiðholtinu hafa setið eftir í verðhækkunum síðustu ára. „Verðin voru lengi lág og fólk hefur verið að færa sig fjær miðbæjarkjarnanum til þess að gera betri kaup. Þar er hægt að kaupa stærri fasteign fyrir sama verð og þegar eftirspurnin eykst með þessum hætti hækkar verðið,“ segir hún. „Þarna hafa verið góð kauptækifæri fyrir þá sem eru að koma fyrstir út á markaðinn.“

„Síðan eru margir farnir að hugsa öðruvísi og vilja skulda minna og vera í úthverfunum þar sem verðið er skaplegra,“ segir Ingibjörg.

Mikið lagt í hverfið

Breiðholt var byggt upp að mestu á árunum á milli 1970 til 1979. Póstnúmer sem tilheyra hverfinu eru 111, sem nær yfir efra Breiðholt og 109 sem nær yfir neðra Breiðholt og Seljahverfi. Breiðholt er fjölmennasta hverfi Reykjavíkur, en þar búa um 17,3 prósent Reykvíkinga, sem telja 20.698 íbúa.

Í hverfinu er hlutfall fólks með erlent ríkisfang mismundi eftir hverfishlutum. Árið var 2013 var hlutfallið 24,6 prósent í Efra-Breiðholti, 16,2 prósent í Neðra-Breiðholti og 11,8 prósent í Seljahverfi.

Töluvert hefur verið lagt í að betrumbæta Breiðholtið á síðustu árum og var t.d. svokallað Breiðholtsverkefni sett á fót í ársbyrjun 2012 en markmiðið með því var að efla menningu, þjónustu og aðra starfsemi hverfisins. Þá má einnig nefna veggmyndirnar umtöluðu en borgarráð ákvað á árinu 2013 að fjölga lista­verk­um í op­in­beru rými í Breiðholti og eru verk­in hluti af átakinu.

„Það er búið að gera mikið fyrir hverfið og hverfasamtökin hafa sýnt mikinn metnað. Þá hefur það sem þurfti að laga verið tekið föstum tökum,“ segir hún og nefnir sem dæmi að slegist hafi verið um uppgerða íbúð í Bakkahverfinu á dögunum og fór hún að lokum á yfirverði.

Færist nær þegar svæðið stækkar

Höfuðborgarsvæðið hefur stækkað mikið á liðnum árum og Ingibjörg bendir á að viðhorf fólks til úthverfanna hafi breyst samhliða því. 

„Fólki finnst þetta ekki lengur vera mjög langt frá bænum vegna þess að byggðir eru komnar miklu fjær,“ segir hún og bendir t.d. á Vallahverfið í Hafnarfirði, Úlfársárdal, Norðlingaholt og ný hverfi í Mosfellsbænum.

Þegar litið er til Breiðholtsins í heild segir Ingibjörg að mesta ásóknin hafi fram að þessu verið í íbúðir í Bakkahverfinu.

Loftmynd af Efra Breiðholti.
Loftmynd af Efra Breiðholti.
Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala.
Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK