„Leyndarhyggja elur á tortryggni“

Már Guðmundsson seðlabankastjóri skrifaði í gær undir síðustu undanþágu frá ...
Már Guðmundsson seðlabankastjóri skrifaði í gær undir síðustu undanþágu frá takmörkunum laga um gjaldeyrismál vegna uppgjörs fallinna viðskiptabanka og sparisjóða á grundvelli stöðugleikaskilyrða. mbl.is/Golli

Forsvarsmenn InDefence-hópsins skora á Seðlabanka Íslands að birta yfirlit yfir undanþágur föllnu bankanna og stöðugleikamat á nauðasamningum þeirra. Þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur upplýsingastreymi frá stjórnvöldum um áætlun um afnám fjármagnshafta verið takmarkað og á köflum misvísandi. Leyndarhyggja elur á tortryggni,“ segir í tilkynningu frá InDefence.

Vísað er til þess, að í gær hafi Seðlabankinn lýst því yfir að hann hafi veitt síðustu undanþáguna frá fjármagnshöftum vegna uppgjörs fallinna viðskiptabanka og sparisjóða á grundvelli stöðugleikaskilyrða.

Fara úr landi með risavaxnar upphæðir

„Kröfuhafar slitabúa föllnu bankanna eru því lausir undan fjármagnshöftum og fara úr landi með risavaxnar upphæðir og starfsmenn þeirra hafa fengið greidda ríflega bónusa. Á sama tíma eru fjármagnsflutningar almennings, atvinnulífs og lífeyrissjóða enn háðir verulegum takmörkunum án þess að birt hafi verið áætlun um það hvenær og hvernig þeim verður aflétt,“ segir hópurinn.

Seðlabankinn birti stöðugleikamat fyrir sérhvert slitabú

Þá segir, að það sé veruleg hætta á að nauðasamningar föllnu bankanna geti haft skaðleg áhrif á framgang áætlunar um afnám hafta og almenn lífskjör á Íslandi. Bent er á, að af þessum ástæðum hafi Alþingi breytt lögum þannig að dómari mætti ekki staðfesta frumvarp að nauðasamningi fjármálafyrirtækis nema að mat Seðlabankans hafi sýnt að viðkomandi samningur raski ekki efnahagslegum stöðugleika á Íslandi.

„Í samræmi við loforð stjórnvalda um gagnsæi við losun fjármagnshafta óskar InDefence hópurinn eftir því að Seðlabanki Íslands birti stöðugleikamat fyrir sérhvert slitabú fjármálafyrirtækis sem lagt hefur fram nauðasamninga,“ segir hópurinn.

Upplýst verði um allar undanþágur frá gjaldeyrishöftum

Jafnframt óskar hópurinn þess að Seðlabankinn geri grein fyrir öllum undanþágum frá
gjaldeyrishöftum sem hafa verið veittar. Nánar tiltekið er óskað eftirfarandi upplýsínga :

Óskað er eftir yfirliti um upphæðir og viðtakendur á erlendum gjaldeyri eða erlendum eignum sem undanþegnar hafa verið höftum.

  1. Undanþágur sem veittar hafa verið til gjaldeyrisviðskipta þar sem íslenska krónan er annar eða einn gjaldmiðlanna í samræmi við neðangreint.
  2. Undanþágur sem veittar hafa verið til fjármagnshreyfinga erlendra eigna (þar með talið undanþágur tengdar innlánum í erlendum gjaldeyri hjá innlendum banka sem greiddar eru út erlendis) í samræmi við neðangreint.

„Fyrir innlenda aðila er beðið um samanlagðar upphæðir undanþága fyrir eftirfarandi hópa: 1) fjármálafyrirtæki í slitameðferð, 2) fjármálafyrirtæki sem lokið hafa slitameðferð (og voru áður fjármálafyrirtæki) 3) lífeyrissjóði og 4) aðrir innlendir aðilar.

Fyrir erlenda aðila er beðið um samanlagðar upphæðir undanþága sem veittar hafa verið
eftirfarandi hópum: 1) forgangskröfuhafar fallinna fjármálafyrirtækja, 2) almennir kröfuhafar fallinna fjármálafyrirtækja, 3) eigendur og kröfuhafar fyrirtækja sem lokið hafa nauðasamningi og 4) aðrir erlendir aðilar,“ segir hópurinn.

Upplýsingastreymið takmarkað og á köflum misvísandi

„Þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur upplýsingastreymi frá stjórnvöldum um áætlun um afnám
fjármagnshafta verið takmarkað og á köflum misvísandi. Leyndarhyggja elur á tortryggni. Þar sem stjórnvöld hafa væntanlega ekkert að fela og allar upplýsingar liggja fyrir, hvetjum við Seðlabanka Íslands til veita þær strax,“ segir að lokum

Undir áskorunin skrifa þeir: Dr. Agnar Helgason mannfræðingur, Davíð Blöndal, eðlis- og tölvunarfræðingur, Ólafur Elíasson MBA, Ragnar Ólafsson félagssálfræðingur, Dr. Sveinn Valfells, eðlis- og hagfræðingur, og Dr. Torfi Þórhallsson, verkfræðingur

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir