1.826 milljónir í rekstrarafgang

Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs.
Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs.

 Rekstrarafgangur Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2015 nam 1.826 milljónum og er eiginfjárhlutfall hans yfir lögbundnu lágmarki í fyrsta skipti frá árinu 2007.

Ársreikningur sjóðsins  var staðfestur af stjórn sjóðsins í dag en samstæðureikningur Íbúðalánasjóðs hefur að geyma reikninga Íbúðalánasjóðs og dótturfélags hans, Leigufélagsins Kletts ehf.

Eiginfjárhlutfall sjóðsins er nú 5,5% en var 4,5% í upphafi árs. Samkvæmt tilkynningu frá sjóðnum er langtímamarkmið hans að hlutfallið sé yfir 5,0%. Eiginfjárhlutfallið hefur ekki verið hærra síðan árið 2007 og eigið fé Íbúðalánasjóðs í lok tímabilsins er 19.838 milljónir kr. en var 18.011 milljónir kr. í árslok 2014.

Vaxtatekjur námu 51.706 milljónum kr. samanborið við 45.783 milljónir kr. fyrir árið 2014.

Rekstrarkostnaður nam 1.874 milljónum kr. og lækkaði um 3% samanborið við árið 2014, þrátt fyrir umtalsverðar hækkanir launa skv. kjarasamningum á tímabilinu. Stöðugildum fækkaði um 6% á árinu. Starfsmenn voru 88 við lok rekstrarársins og eru í dag 83. Rekstrarkostnaður sem hlutfall heildareigna nam 0,23%.

96 prósent í skilum

Útlánasafn sjóðsins hvílir á 55.337 íbúðum í eigu einstaklinga og leigufélaga út um allt land. Í lok tímabilsins voru 96,5 prósent heimila sem eru í viðskiptum við Íbúðalánasjóð með lán sín í skilum. Virðisrýrnun útlána nam 16.148 milljónum kr. í lok árs 2015 og lækkar um 4.443 milljónir kr. á árinu. Segir í tilkynningu sjóðsins að breyting virðisrýrnunar tengist umtalsverðri lækkun vanskila heimila og sterkari tryggingarstöðu lánasafnsins vegna hækkana á fasteignamarkaði.

Í árslok námu útlán 648 milljörðum kr. og höfðu útlán lækkað um 80 milljarða kr. á árinu en þar af eru um 33,8 milljarðar kr. vegna skuldaúrræða stjórnvalda. Skuldastaða sjóðsins nam 784 milljörðum kr. og lækkaði um 22 milljarða kr. á árinu. Fjármagn í ávöxtun utan útlánasafns nam 127 milljörðum kr. í árslok en þar af voru 107 milljarðar kr. í verðtryggðum eignum á móti skuldum sjóðsins. Heildareignir sjóðsins námu 804 milljörðum kr.

Á árinu 2015 seldi sjóðurinn 898 íbúðir og leysti til sín 355 íbúðir. Í lok árs voru 1.348 íbúðir í eigu sjóðsins og hafði þeim fækkað um 543 eignir á árinu. Bókfært virði fullnustueigna sjóðsins tekur mið af kostnaðarverði eða áætluðu gangvirði hvoru sem lægra reynist. Bókfært virði eigna sjóðsins er 20 milljarðar kr., á sama tíma og fasteignamat sömu eigna er 24,6 milljarðar kr.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir