1.826 milljónir í rekstrarafgang

Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs.
Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs.

 Rekstrarafgangur Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2015 nam 1.826 milljónum og er eiginfjárhlutfall hans yfir lögbundnu lágmarki í fyrsta skipti frá árinu 2007.

Ársreikningur sjóðsins  var staðfestur af stjórn sjóðsins í dag en samstæðureikningur Íbúðalánasjóðs hefur að geyma reikninga Íbúðalánasjóðs og dótturfélags hans, Leigufélagsins Kletts ehf.

Eiginfjárhlutfall sjóðsins er nú 5,5% en var 4,5% í upphafi árs. Samkvæmt tilkynningu frá sjóðnum er langtímamarkmið hans að hlutfallið sé yfir 5,0%. Eiginfjárhlutfallið hefur ekki verið hærra síðan árið 2007 og eigið fé Íbúðalánasjóðs í lok tímabilsins er 19.838 milljónir kr. en var 18.011 milljónir kr. í árslok 2014.

Vaxtatekjur námu 51.706 milljónum kr. samanborið við 45.783 milljónir kr. fyrir árið 2014.

Rekstrarkostnaður nam 1.874 milljónum kr. og lækkaði um 3% samanborið við árið 2014, þrátt fyrir umtalsverðar hækkanir launa skv. kjarasamningum á tímabilinu. Stöðugildum fækkaði um 6% á árinu. Starfsmenn voru 88 við lok rekstrarársins og eru í dag 83. Rekstrarkostnaður sem hlutfall heildareigna nam 0,23%.

96 prósent í skilum

Útlánasafn sjóðsins hvílir á 55.337 íbúðum í eigu einstaklinga og leigufélaga út um allt land. Í lok tímabilsins voru 96,5 prósent heimila sem eru í viðskiptum við Íbúðalánasjóð með lán sín í skilum. Virðisrýrnun útlána nam 16.148 milljónum kr. í lok árs 2015 og lækkar um 4.443 milljónir kr. á árinu. Segir í tilkynningu sjóðsins að breyting virðisrýrnunar tengist umtalsverðri lækkun vanskila heimila og sterkari tryggingarstöðu lánasafnsins vegna hækkana á fasteignamarkaði.

Í árslok námu útlán 648 milljörðum kr. og höfðu útlán lækkað um 80 milljarða kr. á árinu en þar af eru um 33,8 milljarðar kr. vegna skuldaúrræða stjórnvalda. Skuldastaða sjóðsins nam 784 milljörðum kr. og lækkaði um 22 milljarða kr. á árinu. Fjármagn í ávöxtun utan útlánasafns nam 127 milljörðum kr. í árslok en þar af voru 107 milljarðar kr. í verðtryggðum eignum á móti skuldum sjóðsins. Heildareignir sjóðsins námu 804 milljörðum kr.

Á árinu 2015 seldi sjóðurinn 898 íbúðir og leysti til sín 355 íbúðir. Í lok árs voru 1.348 íbúðir í eigu sjóðsins og hafði þeim fækkað um 543 eignir á árinu. Bókfært virði fullnustueigna sjóðsins tekur mið af kostnaðarverði eða áætluðu gangvirði hvoru sem lægra reynist. Bókfært virði eigna sjóðsins er 20 milljarðar kr., á sama tíma og fasteignamat sömu eigna er 24,6 milljarðar kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK