Snöggfrysta ísinn með köfnunarefni

Ísleifur heppni var með bás á matarmarkaðnum í Hörpu um ...
Ísleifur heppni var með bás á matarmarkaðnum í Hörpu um helgina og Einar segir að brjálað hafi verið að gera.

Arkitektinn og ísáhugamaðurinn Einar Ólafsson varð svo hugfanginn af ís búnum til með fljótandi köfnunarefni á ferðalagi um Ástralíu að hann stofnaði sinn eigin rekstur hér á landi í kringum fyrirbærið.

Ísbúðin nefnist Ísleifur heppni og er kannski ekki ísbúð í þrengsta skilningi orðsins þar sem reksturinn er ekki í neinu húsnæði ennþá. Leitin stendur þó yfir en Einar vill helst hafa verslunina miðsvæðis en þó þannig að nóg sé um bílastæði. Í millitíðinni hefur Einar ásamt fjölskyldu sinni selt ísinn á matarmörkuðum og í veislum.

Fyrst fyrir viðskiptavininn

Ísinn er óhefðbundinn að því leyti að blandan er búin til og síðan fryst beint fyrir framan viðskiptavininn með fljótandi köfnunarefni. Lögunin er mikið sjónarspil að sögn Einars þar sem mikil og þétt gufa myndast. Á nokkrum sekúndum umbreytist ísblandan síðan í mjúkan ís án ískristalla.

Einar segist vilja vanda til verka og hefur því ekki verið að flýta sér þrátt fyrir að hafa verið með allt tilbúið í nokkurn tíma. Hann hefur þróað nokkrar bragðtegundir og var t.a.m. með fjórar í boði á matarmarkaðnum í Hörpu um helgina; súkkulaði, jarðaberja, vanillu og saltkaramellu. Uppistaðan er mjólk, rjómi og hrásykur ásamt öðru fersku hráefni að sögn Einars sem segist ekki nota auka- eða litarefni í ísinn.

Hver og einn skammtur er frystur sérstaklega og Einar telur bragðið vera dýpra og meira en af hefðbundnum ís sem er vatnskenndari.

Einar Ólafsson er arkitekt og mikill ísáhugamaður.
Einar Ólafsson er arkitekt og mikill ísáhugamaður.

Ís og arkitektúr

Einar segist vera gríðarlegur ísáhugamaður. „Ég hef farið víða um heim og þegar ég fer í ferðalög er tvennt sem ég tek eftir. Það er arkitektinn og ísbúðirnar,“ segir hann. Aðspurður hvar bestu ísbúðirnar sé að finna nefnir Einar tvær, þ.e. eina í borginni Lecce á Suður-Ítalíu auk ísbúðarinnar Amorino í París. 

Aðspurður hvernig íslenskur ís stenst samanburðinn telur Einar einungis tvær vera þess virði að fara í. „Annars eru þetta ekki mikil gæði að mínu mati. Það eru mikil aukaefni í gangi og ísinn í borðinu er eins og litapalletta vegna allra auka- og litarefnanna,“ segir hann og nefnir sem dæmi að pistasíu-ísinn sé víðast hvar grænn á litinn. Raunverulega eigi ísinn hins vegar að vera brúnn sökum þess að hneturnar gera hann brúnan á lit.

Smá sýnishorn frá Krás matarmarkaðinum í sumar

Posted by Ísleifur Heppni on Sunday, November 15, 2015
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir