Vissu af „dauðalistanum“

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar. mbl.is/Golli

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir að það hafi ekki komið sér á óvart að sjá fyrirtæki sitt á lista innan úr Arion banka sem gengið hefur undir heitinu „dauðalistinn“. Listinn, sem hefur að geyma nöfn 40 félaga og fyrirtækja í eigu þeirra, var fyrst gerður opinber í Morgunblaðinu í febrúar síðastliðnum.

„Við vissum alltaf af því að við vorum á þessum lista og framganga bankans gagnvart okkur í kjölfar hrunsins staðfesti það allt.“

Spurður út í það af hverju bankinn hafi ekki tekið allt fyrirtækið yfir segir Andri að bankinn hafi metið það svo að honum hafi ekki verið stætt á að reka fyrirtækið án áframhaldandi þátttöku þáverandi stjórnenda.

Annað dæmi um hörkuna sem fyrirtækinu var sýnd segir Andri Þór hafa birst í því að fasteignir þess hafi endað að öllu leyti í eigu bankans.

„Við áttum félag utan um fasteignir Ölgerðarinnar. Það var að 51% hluta í eigu fyrirtækisins og 49% hluta í eigu Arion banka. Við hina svokölluðu endurskipulagningu tók bankinn allan hlut fyrirtækisins yfir. Þar færðust miklar eignir yfir til bankans.“

Í umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag segir hann bankann hafa gengið eins langt og honum var unnt í þeirri viðleitni að hrifsa til sín eignir af þáverandi hluthöfum fyrirtækisins. Arion banki hafi hrifsað til sín milljarða eignir.

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir