Már: „Mikil vonbrigði“

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Golli

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að það hafi verið mikil vonbrigði að fjárfestingafélagið Ursus, sem er eigu Heiðars Guðjónssonar, hafi verið til skoðunar til hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands á sama tíma og það ætlaði að kaupa stóran hluta í tryggingafélaginu Sjóvá árið 2010.

Á þessum tíma átti Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) 73,3% hlutafjár í Sjóvá.

Aðalmeðferð í máli Heiðars gegn Seðlabanka Íslands og ESÍ þar sem hann krefst um tveggja milljarða í skaðabætur auk vaxta, hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Már var á meðal þeirra sem voru kvaddir fyrir dóm.

Spurður hvort hann hafi haldið að menn væru komnir langt í land með að landa samningi sagði Már: „Ég ekki bara hélt það heldur vonaði það. Það voru mikil vonbrigði að þetta skyldi koma upp,“ sagði hann.

„Við upplýstum aðilana um þetta, að við höfðum fengið þessa tilkynningu. Þess vegna gætum við ekki farið áfram með málið í bili fyrr en við gætum fengið botn í þetta.“

Úr varð að gjaldeyriseftirlitið kærði Ursus vegna brota á gjaldeyrishöftum og í framhaldinu varð ekkert af viðskiptunum með Sjóvá.

Heiðar Már Guðjónsson höfðaði skaðabótamál gegn Seðlabanka Íslands. Aðalmeðferð í …
Heiðar Már Guðjónsson höfðaði skaðabótamál gegn Seðlabanka Íslands. Aðalmeðferð í málinu hófst í morgun. mbl.is/Eggert

Áttaði sig á því að málin tengdust hugsanlega

Már segist hafa fengið að vita af því að Ursus hafi verið í skoðun hjá gjaldeyriseftirlitinu  11. september 2010 þegar hann fékk tölvupóst þess efnis frá framkvæmdastjóri eftirlitsins. „Þar var upplýst að málið væri til skoðunar hjá gjaldeyriseftirlitinu. Þá hafi aflandskrónur verið fluttar yfir aflandsmarkað og hugsanlega átti að nota til að greiða hluta af kaupverði Sjóvár. Það var ekki fyrr en þá sem ég áttaði mig á að þessi mál væru hugsanlega að tengjast,“ sagði Már og bætti við að framkvæmdastjórinn hafi þarna verið að upplýsa hann um mál sem gæti haft veruleg áhrif samninginn og á orðspor Seðlabanka Íslands.

Heiðar Guðjónsson byggir málshöfðun sína á því að samkomulag hafi tekist 10. júlí 2010 milli hans og ESÍ um að Ursus myndi kaupa tiltekinn fjölda hluta í félaginu Sjóvá. Þegar öllum fyrirvörum í samkomulagi aðila hafi verið fullnægt og þeir náð samkomulagi um nánari útfærslu viðskiptanna, í lok september 2010, hafi ESÍ og Seðlabanki Íslands sannmælst um  að standa ekki við samkomulagið.

Seðlabanki Íslands heldur því fram að endanlegt samkomulag hafi ekki náðst á milli aðila, þ.e. að enginn bindandi samningur hafi verið gerður, þegar ákveðið var að gera hlé á viðskiptunum vegna rannsóknar gjaldeyriseftirlitsins á Ursusi.

Átti að ýta Heiðari úr kaupendahópnum

Heiðar bar einnig vitni. Aðspurður sagði hann það aldrei hafa hvarflað að sér að hann væri hugsanlega að brjóta reglur um gjaldeyrismál  og taldi umkvartanir Seðlabanka Íslands vegna málsins vera ofar sínum skilningi „Ég taldi að þetta væri fullkomlega eðlilegt og í samræmi við lög. Ég skildi ekkert að menn væru að hnýta í þetta,“ sagði Heiðar og bætti við að Seðlabankinn hafi talið að ef klára ætti viðskiptin þyrfti að ýta honum út úr kaupendahópnum.

Hinn 26. nóv­em­ber 2010 ákvað Seðlabank­inn að vísa mál­inu til lög­reglu. Sér­stak­ur sak­sókn­ari ákvað 27. fe­brú­ar 2012 að rann­sókn máls­ins skyldi hætt.

„Þetta fráleita dæmi dæmdi mig úr leik“

Heiðar var spurður út í áhrifin sem málið hafði á þátttöku hans í atvinnulífinu á þessum tíma. „Ég hafði unnið við fjárfestingar í 17 ár og gat ekki unnið við það. Bankar krefjast þess að maður upplýsi ef maður er til rannsóknar einhvers staðar. Þetta fráleita dæmi dæmdi mig úr leik um langt skeið.“

Arnór Sighvatsson staldraði stutt við

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri mætti einnig í dómsalinn sem vitni en staldraði stutt við, eða í mesta lagi eina mínútu.

Steinar Þór Guðgeirsson, verjandi Seðlabanka Íslands, spurði hvort hann hefði haft bein afskipti af söluferli ESÍ við Sjóvá. Arnór svaraði því neitandi.

Lögmaður Heiðars kvaðst ekki vilja spyrja hann að neinu, þrátt fyrir að hafa boðað hann sem vitni. Taldi lögmaðurinn að hann hefði þegar fengið þær skýringar sem hann hefði óskað eftir.

Frétt mbl.is: Undirstriki brot Seðlabankans

Einnig voru kölluð fyrir dóminn Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri ESÍ, Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabankans, Birgir Birgisson, lögfræðingur hjá Sölvhóli ehf. sem er í eigu Seðlabankans og Birkir Tjörvi Pétursson, lögfræðingur fjárfestingahóps Heiðars.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK