„Rangfærslur stýrðu umræðunni“

Her­dís Dröfn Fjeld­sted, stjórn­ar­formaður VÍS
Her­dís Dröfn Fjeld­sted, stjórn­ar­formaður VÍS mbl.is/Eggert Jóhannesson

Boðað hefur verið til nýs aðalfundar VÍS 6. apríl næstkomandi og er aðeins eitt mál á dagskrá - kosning stjórnar. Fresta varð aðalfundi í gær vegna skorts á körlum.  Stjórnarformaður VÍS segir að rangfærslur hafi stýrt umræðunni um arðgreiðslur félagsins og að ýmsir sem viti betur hafi komið með rangar fullyrðingar.

„Tryggingastarfsemi er á margan hátt flókið fyrirbæri. Það gefur þeim tækifæri sem sjá ekkert athugavert við það sóma síns vegna að veifa frekar röngu tré en engu. Þannig komu ýmsir að umræðunni með rangar fullyrðingar vitandi betur. Hina er ekki hægt að áfellast sem endurómuðu slíkan málflutning af vanþekkingu. Þar getum við litið í eigin barm og bætt úr upplýsingagjöf um eðli starfseminnar og þær reglur sem um hana gilda,“ sagði Herdís Dröfn Fjeld­sted, stjórn­ar­formaður fé­lags­ins, í ávarpi sínu á aðalfundinum í gær.

Við upphaf aðalfundar félagsins í gær tilkynntu Guðmundur Þórðarson og Jóhann Halldórsson að þeir hefðu dregið framboð sín til aðalstjórnar VÍS til baka. Þar með var einungis einn karl í framboði til aðalstjórnar en fjórar konur.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um hlutafélög og 3. mgr. 19. gr. (áður 15. gr.) samþykkta félagsins skal hlutfall hvors kyns í stjórn félagsins eigi vera lægra en 40%. Þar sem einungis einn karlkyns einstaklingur var í framboði til aðalstjórnar var orðið ljóst að niðurstaða stjórnarkjörs gat ekki orðið í samræmi við fyrrgreint lagaákvæði og ákvæði samþykkta félagsins. Núverandi stjórn starfar áfram þar til ný stjórn verður kjörin á framhaldsaðalfundi.

Frestur til að tilkynna um ný framboð til stjórnar á stjorn@vis.is lýkur fimm dögum fyrir framhaldsaðalfundinn, föstudaginn 1. apríl 2016, kl. 16:00. Framboðseyðublað má finna á vefsíðu félagsins. Upplýsingar um frambjóðendur til stjórnar verða lagðar fram hluthöfum til sýnis í höfuðstöðvum félagsins eigi síðar en tveimur dögum fyrir framhaldsaðalfundinn.

Höfuðstöðvar VÍS
Höfuðstöðvar VÍS mbl.is/Styrmir Kári

Í ávarpi sínu á aðal­fundi VÍS í gær fjallaði Her­dís Dröfn Fjeld­sted, stjórn­ar­formaður fé­lags­ins, meðal ann­ars um breyt­ing­ar­til­lögu stjórn­ar um arðgreiðslur vegna árs­ins 2015. Hún fór yfir fjöl­miðlaum­ræðu sem varð í kjöl­far fyrri til­lögu sem hún sagði lit­ast af van­trausti í garð at­vinnu­lífs­ins sem stjórn fé­lags­ins hefði van­metið og þyrfti að læra af. Það væri verk­efni viðskipta­lífs­ins, stjórn­mála og hags­munaaðila að vinna að því að end­ur­vinna traust og trúnað.

Her­dís sagði al­menna reglu þá að þeir fjár­mun­ir sem bundn­ir eru í hluta­fé­lög­um og nýt­ast ekki í rekstri þeirra séu greidd­ir til hlut­hafa.

Hún sagði að þegar núverandi stjórn tók við í nóvember síðastliðnum lá fyrir markmið um áhættuvilja félagsins. „Sú stefna tryggir sterka stöðu félagsins til að mæta vátryggingarskuld sinni og hagkvæmni í rekstri. Miðað við þessa stefnu sem engin athugasemd hafði verið gerð við var arðgreiðslugeta félagsins töluverð. Stjórn ákvað þó að ganga skemur en rúmaðist innan stefnunnar og leggja til við aðalfund arðgreiðslu upp á fimm milljarða.

Samkvæmt hlutafélagalögum er hluthöfum heimilt að leggja til lægri fjárhæð í arðgreiðslur en stjórn leggur til. Þegar fram kom að einhverjir hluthafar teldu arðgreiðsluna of háa sendi stjórn frá sér yfirlýsingu þar sem bent var á þetta. Fjármálaeftirlitið hafði áður sent frá sér yfirlýsingu þar sem leiðréttar voru ýmsar rangfærslur í umræðunni um arðgreiðslu, vátryggingaskuld og heimildir til að nýta afkomu af fjárfestingastarfsemi til lækkunar iðgjalda,“ sagði Herdís í ræðu sinni.

Í 65. gr. laga um vátryggingastarfsemi kemur fram að iðgjöld skulu vera í samræmi við þá áhættu sem í vátryggingunum felst og hæfilegan rekstrarkostnað. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með iðgjaldagrundvelli vátryggingafélaga með það fyrir augum að framangreind skilyrði séu uppfyllt.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS
Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS mbl.is/Styrmir Kári

Neikvæð umræða ógnaði orðspori félagsins

„Staðreyndir sem þessar höfðu lítil áhrif á fjölmiðlaumræðu og stjórn var ljóst að rangfærslur, þótt leiðréttar hefðu verið, stýrðu umræðunni og voru farnar að skaða félagið og valda starfsfólki félagsins gríðarlegu álagi.

Ég vil nota tækifærið til þess að þakka starfsfólki VÍS hversu vel það stóðst ágjöfina sem á því dundi. Það eru mikil verðmæti að hafa slíkt fólk í röðum félagsins. Breytingartillaga stjórnar um að miða arðgreiðslu síðasta árs við hagnað félagsins tekur mið af því að neikvæð umræða hafði öðlast sjálfstætt líf sem ógnaði orðspori félagsins og eðlilegar röksemdir fyrir ráðstöfun fjármuna eins og upphaflega var lagt upp með náðu ekki máli.

Tryggingastarfsemi er á margan hátt flókið fyrirbæri. Það gefur þeim tækifæri sem sjá ekkert athugavert við það sóma síns vegna að veifa frekar röngu tré en engu. Þannig komu ýmsir að umræðunni með rangar fullyrðingar vitandi betur. Hina er ekki hægt að áfellast sem endurómuðu slíkan málflutning af vanþekkingu. Þar getum við litið í eigin barm og bætt úr upplýsingagjöf um eðli starfseminnar og þær reglur sem um hana gilda.

Annar lærdómur sem við sem komum að þessari ákvörðun getum dregið af umræðunni er að afstaðan til tillögunnar mótaðist meir af almennu vantrausti til viðskiptalífsins en við gerðum okkur grein fyrir. Umgjörð, reglur og eftirlit með starfsemi félags eins og VÍS eru mun meiri en áður var og stjórn vann eftir öllum reglum um góða stjórnarhætti og þeirri ábyrgð sem hvílir á jafn mikilvægri starfsemi og vátryggingastarfsemi.

Það er verk að vinna að skapa traust og trúverðugleika. Þar þarf viðskiptalífið að leggja lóð á vogarskálar, ásamt með stjórnmálamönnum og hagsmunaaðilum,“ sagði Herdís.

Hún segir að breytingartillagan feli í sér frávik frá meginreglu:

„Í félaginu eru hátt í eitt þúsund hluthafar og að baki stórum hluthöfum eru endanlegir eigendur almenningur í landinu. Stjórn á hverjum tíma þarf að horfa til þeirrar ábyrgðar sem felst í því að fara með fjárfestingar almennings og af þeim verði eðlileg arðsemi.

Breytingartillaga stjórnar felur í sér frávik frá þeirri reglu að heilbrigðast sé fyrir efnahags og atvinnulíf að þeir fjármunir sem nýtast ekki til starfsemi hlutafélaga séu greiddir út til hluthafa sem finni þeim sjálfir farveg. Þannig stuðla arðgreiðslur að fjölbreyttari fjárfestingu í samfélaginu og snúa hjólum efnahagslífsins.

Arðgreiðsla er heldur ekki þess eðlis að nýir fjármunir verði til, enda lækka hlutabréf félaga til samræmis við arðgreiðslu ef ekki kemur annað til. Ágætu hluthafar Í ljósi þess sem ég hefi rakið hér að framan er nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar og verja orðspor félagsins. Breytingartillaga stjórnar um arðgreiðslu tekur mið af því,“ sagði Herdís í ávarpi sínu á aðalfundi VÍS í gær.

Á aðalfundinum var samþykkti að mánaðarleg stjórnarlaun yrðu kr. 350.000,- fyrir almennan stjórnarmann og kr. 600.000,- fyrir formann. Varastjórnarmenn fengju greidda eingreiðslu að fjárhæð kr. 350.000,- í upphafi starfsárs og að auki kr. 100.000,- fyrir hvern fund sem þeir mæta á. Þóknun fyrir formennsku í endurskoðunarnefnd yrði kr. 160.000 á mánuði en aðrir nefndarmenn fengju kr. 80.000 á mánuði. Þóknun fyrir nefndarmenn í starfskjaranefnd yrði kr. 50.000 fyrir hvern fund.

Jafnframt var samþykkt að greiða hluthöfum 2.067 milljónir króna í arð en til stóð að greiða út fimm þúsund milljónir í arð. 

Ávarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK