Smalaði 376 blaðamönnum í 80 löndum

Umfjöllunin var biðinnar virði þar sem hún hefur vakið gríðarlega …
Umfjöllunin var biðinnar virði þar sem hún hefur vakið gríðarlega athygli. AFP

Varaformaður alþjóðlegu blaðamannasamtakanna ICIJ, sem stóðu fyrir umfjölluninni um Panama-skjölin, þurfti að hafa stjórn á 376 blaðamönnum í 80 löndum á meðan rannsóknin stóð yfir. Blaðamennirnir kölluðu hana gjarnan „kattasmalarann“ og er þar væntanlega átt við að erfitt hafi verið að stjórna þessu fólki. 

Marina Walker Guevara, aðrir stjórnendur ICIJ og blaðamennirnir 376 hafa lagt gríðarlega mikið á síg á síðastliðnu ári. Í byrjun árs 2015 stóðu samtökin fyrir annarri umfjöllun um skattsvik sem unnin var upp úr leyniskjölum frá HBSC bankanum.

„Við ætluðum aldrei að gera þetta aftur,“ segir Marina í samtali við Pro Publica. „Þetta var frábært. En við vorum úrvinda og þurftum á fríi að halda.“

Stuttu síðar fékk hún hins vegar símtal frá þýska blaðinu Süddeutsche Zeitung um mun stærri gagnaleka en þann fyrrnefnda. Hann varðaði lögmannsstofuna Mossack Fonseca og Panama-skjölin frægu. Marina segist m.a. hafa leitað til New York Times, CNN og 60 Minutes eftir samstarfi við umfjöllunina. Fjölmiðlarnir sögðust ýmist ekki hafa tíma eða voru áhugalausir.

Erfitt að fá blaðamenn til að deila

Hún segir að það hafi oft reynst erfitt að fá blaðamennina til að deila upplýsingum sem þeir höfðu komist yfir. Þetta væru reyndir rannsóknarblaðamenn sem héldu sínum málum vanalega leyndum. 

Sérstöku leynilegu spjallsvæði var haldið úti þar sem blaðamennirnir gátu átt samskipti sín á milli. Þegar Marina hafði ekki heyrt frá þeim í eina eða tvær vikur sendi hún þeim fyrirspurn og þá voru blaðamennirnir gjarnan tregir til að svara. „Þá hvatti ég þá til að deila þessu og minnti á að Süddeutsche Zeitung væri að deila 1,5 milljónum skjala með okkur.“

„Ég þurfti að fá þá til þess að skilja að þeir gætu ekki gengið um þessi gögn sem einkaeign.“

Mikil leynd og erfið bið

Marina segir að erfitt hafi verið að bíða með umfjöllunina þegar fréttir um spillingarmálin innan FIFA komust í hámæli þar sem ICIJ bjó yfir heilmiklum upplýsingum um málið. Þá voru samtökin einnig með upplýsingar um 100 félög sem tengdust lykilpersónum í umfjöllun um stórt mútumál sem kom upp í Brasilíu.

„Við gátum ekki birt þetta,“ segir Marina og bendir á að ætlunin hafi verið að birta alla umfjöllun samtímis til þess að hafa mikil áhrif.

„Við vildum hafa áhrif á heimsvísu. Við vildum ekki að sagan myndi leka út og birtast í litlum greinum sem myndu komast í fréttirnar í einn dag í einu landi og gleymast síðan.“

Til þess að koma í veg fyrir þetta þurftu blaðamenn m.a. að leyna upplýsingum um málin fyrir eigin yfirmönnum til þess að koma í veg fyrir þrýsting um birtingu.

Hér má hlusta á Podcast viðtal við Marinu.

Marina Walker Guevara, varaformaður ICIJ.
Marina Walker Guevara, varaformaður ICIJ. Mynd/ICIJ
Höfuðstöðvar Mossack Fonseca lögmannsstofunnar í Panama city í Panama.
Höfuðstöðvar Mossack Fonseca lögmannsstofunnar í Panama city í Panama. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK