Fyrstu gestirnir komnir að Deplum

Sundlaug á neðri hæð hótelsins á Deplum og einnig fyrir ...
Sundlaug á neðri hæð hótelsins á Deplum og einnig fyrir utan það. Þetta er aðeins hluti af þeirri aðstöðu sem gestum er boðið upp á. Ljósmynd/Eleven Experience

Lúxushótelið að Deplum í Fljótum í Skagafirði var opnað sl. fimmtudag þegar tekið var á móti fyrstu gestunum, að því er fram kom í fréttablaðinu Feyki á Sauðárkróki.

Fyrstu framkvæmdir hófust fyrir um þremur árum. Síðustu mánuði hafa um 100 iðnaðarmenn verið að störfum við uppbyggingu hótelsins og meðfylgjandi aðstöðu og þegar mest lét voru um 150 manns að Deplum. Framkvæmdum er þó ekki alveg lokið en það er bandaríska ferðaþjónustufyrirtækið Eleven Experience sem byggir og starfrækir hóelið.

Aðbúnaður allur á hótelinu er fyrsta flokks og ýmislegt gert til að láta gestum líða sem best. Alls verður hægt að taka á móti 28 gestum í einu en flatarmál hótelsins og tengdra bygginga er um 2.600 fermetrar. Við hótelið verða tveir þyrlupallar.

Í boði eru 12 herbergi og íbúðir af ýmsum stærðum og gerðum, veitingahús, bar, veislueldhús, útisundlaug, heitir pottar, nuddstofa, gufubað, ráðstefnusalur, líkamsræktarsalur og fleira. Í boði verða m.a. þyrluskíðaferðir, laxveiði, hestaferðir, gönguferðir, fjallganga og -klifur, hvalaskoðun, hjólreiðar, ljósmyndaferðir og fuglaskoðun.

Samkvæmt bæklingi frá Eleven kostar nóttin á Deplum minnst 1.750 dollara á mann, eða um 217 þúsund krónur. Innifalið í því eru gistingin að sjálfsögðu, allur matur, afþreying margs konar, drykkir, leiðsögn, flugferðir til og frá Akureyri og með í för getur verið atvinnuljósmyndari. Fyrir þyrluflug, fljótasiglingar og jeppaferðir þarf að greiða aukagjald. „Mikil eftirvænting ríkir hjá Eleven með að hafa loksins komið starfseminni á Deplum í gang. Það hefur tekið langan tíma að ná þessum áfanga og við getum vart beðið eftir því að kynna undur Norðurlands fyrir viðskiptavinum okkar um allan heim,“ segir Jake Jones, framkvæmdastjóri Eleven Experience, við Morgunblaðið.

Fengið frábæran stuðning

Jones segir fyrstu gestina komna til að fara í þyrluskíðaferðir og fullbókað sé fram á vor, eða eins lengi og skíðafærið á Tröllaskaganum leyfir. Þá verði skipt yfir í sumarstarfsemina og m.a. er von á laxveiðimönnum til að veiða í Fljótum og víðar. „Starfsemi Eleven snýst um að bjóða upp á ævintýraferðir, ekki aðeins fyrir þaulreynt skíðafólk og veiðimenn heldur einnig fjölskyldufólk. Við höfum fengið frábæran stuðning frá nágrönnum okkar í Fljótum og fólki annars staðar af landinu,“ segir Jake Jones.

John Featherman, umsjónarmaður eigna og þróunar fyrir Eleven Experience, segir vinnuframlag iðnaðarmanna og annarra starfsmanna stórkostlegt við að gera hótelið klárt í tæka tíð. Ekki hafi síður verið magnað að finna fyrir stuðningi íbúa í Fljótum, hvort sem það hefur verið matseld fyrir iðnaðarmenn eða snjómokstur á vegunum við mjög erfiðar aðstæður.

„Síðustu tveir mánuðir hafa verið ótrúlegir, við erum mjög stolt af þessum árangri og enn stoltari af því að fá að tilheyra þessu samfélagi,“ segir Featherman.

Lúxushótelið er með 12 herbergi og íbúðir af ýmsum stærðum.
Lúxushótelið er með 12 herbergi og íbúðir af ýmsum stærðum.

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir