Icelandair tapar 2 milljörðum

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Icelandair Group tapaði sautján milljónum dollara, eða tveimur milljörðum króna, á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Tapið jókst milli ára en á sama tímabili í fyrra nam það fjórtán milljónum dollara.

Rekstr­ar­hagnaður fyr­ir af­skrift­ir,  EBITDA, var þó jákvæður um 1,1 milljón dollara, eða 136 milljónir króna, sem er viðsnúningur milli ára. Á síðasta ári var hann neikvæður um 2,,3 milljónir dollara.

Heildartekjur félagsins jukust um 14% og jókst handbært fé frá rekstri milli ára. Það nam 148,9 milljónum dollara í lok fjórðungsins samanborið við 117,7 milljónir dollara árið áður. Eiginfjárhlutfall var 37%.

Í afkomutilkynningu er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group, að fyrsti fjórðungur ársins sé jafnan þungur í rekstri þar sem mikið af kostnaði, sem tengist auknu umfangi á háönn, sé gjaldfærður á fjórðungnum.

EBITDA jákvæð í fyrsta sinn í sex ár

Ánægjulegt sé því að sjá að EBITDA sé jákvæð í fyrsta sinn síðan árið 2010.

Launakostnaður hækkaði um 25% milli ára en það skýrist af auknu umfangi, samningsbundnum launahækkunum og styrkingu krónunnar á móti bandaríkjadal, að því er segir í tilkynningu.

Farþegum í millilandaflugi fjölgaði um 21% og segir Björgólfur að horfur í millilandastarfsemi Icelandair Group séu áfram góðar.

EBITDA spá lækkuð

Eldsneytisverð hefur hækkað nokkuð frá því það var lægst í janúar og gerir félagið ráð fyrir um 14% hærra verði, að meðaltali það sem eftir lifir árs, en við gerðum þegar við EBITDA spá var gefin út í byrjun febrúar.

Kostnaðarhækkanir, sérstaklega hvað varðar laun, og lækkun meðalfargjalda umfram áætlanir vega jafnframt þungt í því að EBITDA spá félagsins lækkar nú í 235 til 245 milljónir dollara úr 245 til 250 milljónum dollara.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir