Tekjurnar sjaldnast taldar fram

Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri á fundi í Odda í dag.
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri á fundi í Odda í dag. mbl.is/Styrmir

Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, telur skattgreiðendur hafa of mikil völd við athugun á skattskilum. Hún telur að gjaldandi ætti að bera hallann af gagnaskorti. Rýmri heimild væri til áætlunar tekna og viðurlög harðari ef gögnum er ekki skilað.

Þetta kom fram í máli Bryndísar á fundi um Panamaskjölin í Háskóla Íslands í dag. Fundurinn var haldinn á vegum Alþjóðamálastofnunar, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, Lagastofnunar og Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Bryndís benti á að gögnin sem skattyfirvöld keyptu síðasta sumar og þau sem komið hafa í ljós í umfjöllun fjölmiðla væru af sama meiði. Saman væri þetta stærsti upplýsingagrunnur sem skattyfirvöld hafa nokkru sinni komist yfir. 

Greint frá eignarhaldi í 1/6 tilvika

Gögnin tengja um 600 félög við 400 einstaklinga en 200 félög hefur ekki verið hægt að tengja við ákveðin nöfn. Þegar gögnin voru borin saman við skattskil kom í ljós að eignarhaldið var talið fram í skattskilum í um 100 tilvikum. Það heyrir til undantekninga ef tekjur voru taldar fram.

Bryndís segir íslensk skattyfirvöld í dag vera í einstakri stöðu og veit hún ekki til þess að vinna sé hafin við nokkur mál í öðrum Norðurlöndum. 

„Til þess að hægt sé að vinna með gögn um aflandsfélög þarf annars vegar gögn um eignarhald og hins vegar gögn um fjármuni,“ sagði Bryndís. Til þess að skattskoðun geti orðið að refsimáli þarf hvort tveggja að liggja fyrir og tekur refsingin þá miða af fjárhæðinni sem undan var dregin. Skattrannsóknarstjóri sér um þessi mál en ef skattskil reynast óheimil, en þó ekki refsiverð, er skattstofninn einfaldlega áætlaður á gjaldanda. Ríkisskattstjóri sér um þau mál.

Líkt og fram hefur komið hélt skattrannsóknarstjóri eftir 30 alvarlegustu málunum af aðkeyptu gögnunum og fékk Ríkisskattstjóri restina. 

Dauðleg blanda á Tortóla

„Það er dauðleg blanda skattyfirvalda þegar félag er skráð á svæði sem erfitt er að fá upplýsingar frá og fjármunir eru í ríki með ríkri bankaleynd,“ sagði Bryndís og tók Bresku Jómfrúareyjarnar sem dæmi. Þegar skattyfirvöld kalla eftir gögnum þaðan fæst aðeins skráningarskírteini þar sem nafn félags kemur fram ásamt stjórnarmönnum, sem oftar en ekki eru á vegum fyrirtækisins er stofnaði félagið, líkt og kom í ljós í Panamalekanum og í tilviki hinna svokölluðu „stjórnarmanna Íslands“. Hlutafé er síðan gefið út á handhafa og er því ekkert sem tengir t.d. Íslending við félagið.

Upplýsingarnar sem fengust með Panamaskjölunum vörpuðu hins vegar ljósi á það sem er á bak við þessa skráningu og sýndu hinn raunverulega eiganda sem hafði verið falin yfirráð með samningi við stjórn félagsins.

Var hagstætt að taka fjármuni úr landi

Bryndís ræddi um mikinn fjölda aflandsfélaga í eigu Íslendinga og telur ástæðurnar helst vera tvær. Annars vegar umfangsmikla starfsemi dótturfélaga íslensku bankanna í Lúxemborg sem stofnuðu félögin auk þess sem hagstætt var að fara með fjármuni úr landi í skattaumhverfinu hér á landi fyrir hrun.

Bryndís segir aðgang skattyfirvalda að upplýsingum skipta öllu máli og telur völd gjaldanda við skattskoðun vera umhugsunarverð. Hann hafi mikla stjórn á gögnunum sem ákveðið er að leggja fram og telur hún rétt að skoða lagabreytingar þar sem gjaldandi yrði mögulega látinn bera hallann af því að leggja ekki fram nauðsynleg gögn með rýmri heimildum til áætlunar tekna eða að viðurlögum yrði beitt með harðari hætti.

Panamafundur
Panamafundur mbl.is/Styrmir
Höfuðstöðvar Mossack Fonseca lögmannsstofunnar í Panama city í Panama.
Höfuðstöðvar Mossack Fonseca lögmannsstofunnar í Panama city í Panama. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK