Félag stjórnenda Dagsbrúnar gjaldþrota

Þórdís J. Sigurðardóttir, fyrrverandi stjórnarformaður Dagsbrúnar.
Þórdís J. Sigurðardóttir, fyrrverandi stjórnarformaður Dagsbrúnar. mbl.is/Brynjar Gauti

Fjárfestingarfélagið Selsvör ehf. hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Félagið var stofnað utan um eignarhlut nokkurra stjórnenda Dagsbrúnar, fyrrverandi móðurfélags 365 miðla og Og Vodafone, í félaginu.

Samkvæmt fyrirtækjaskrá var félagið stofnað af Bókaforlaginu Dægradvöl ehf, sem var í eigu hjónanna Öldu Lóu Leifsdóttur og Gunnars Smára Egilssonar, og félaginu Klapparás ehf., sem var í eigu Árna Haukssonar.

Gunnar Smári var forstjóri Dagsbrúnar og Árni Hauksson var stjórnarmaður félagsins. Í stjórn félagsins sátu þau Alda Lóa, Gunnari Smári, Árni og eiginkona hans Inga Lind Karlsdóttir.

Í ársreikningi Selsvarar frá árinu 2005 kemur fram að félagið Hið íslenska ráðgjafahús hafi þá einnig verið búið að eignast 30% hlut á móti 35% hlutum Dægradvalar og Klapparáss. 

Hið íslenska ráðgjafarhús, sem í dag nefnist Smile ehf., er í eigu hjónanna Þórdísar Jónu Sigurðardóttur og Kristjáns Vigfússonar. 

Þórdís J. Sigurðardóttir var forstöðumaður norrænna fjárfestinga hjá BaugiGroup og stjórnarformaður Dagsbrúnar.

Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi forstjóri Dagsbrúnar er núverandi eigandi Fréttatímans.
Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi forstjóri Dagsbrúnar er núverandi eigandi Fréttatímans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður breyttist í stórt tap

Samkvæmt ársreikningi Selsvarar fyrir árið 2005 skilaði félagið 202 milljóna króna hagnaði. 

Í frétt Viðskiptablaðsins frá september 2006 kemur fram að Þórdís, Árni og Gunnar Smári hafi keypt hlutafé í Dagsbrún fyrir 2,5 milljarða króna í gegnum félagið.

Eignarhald Selsvarar hafði breyst á árinu 2006 og var þá félagið Hið Íslenska ráðgjafahús eini eigandi þess, en líkt og áður segir var það í eigu þeirra Þórdísar og Kristjáns. Höfðu aðrir losað um hlut sinn.

Staða félagsins hafði þá breyst töluvert milli ára og nam tap félagsins alls 304 milljónum króna, samanborið við 202 milljóna króna hagnað árið áður. Í ársreikningi félagsins frá árinu 2006 segir að 340 milljóna króna tap hafi verið af verðbréfaviðskipum.

Síðasti ársreikningur félagsins er frá árinu 2007 og voru Þórdís og Kristján þá ennþá eigendur félagsins. Nam tap félagsins á því ári alls 8,5 milljónum króna.

Fjárfestingafélagið Selsvör var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 20. apríl sl. 

Dagsbrún hf. hét síðar 365 hf. og þar á eftir Íslensk afþreying hf., sem varð gjaldþrota árið 2009. Fjölmiðlahluti félagsins var þá seldur til Rauðsólar ehf., sem var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Árið 2009 yfirtóku 365 miðlar ehf. félagið Rauðsól.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK