Halda vöxtum óbreyttum

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Árni Sæberg

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,75%. Þetta var tilkynnt í dag.

Samkvæmt áætlun Hagstofu Íslands var hagvöxtur í fyrra 4% sem er mjög nærri febrúarspá Seðlabankans. Horfur eru á að hagvöxtur verði enn meiri í ár eða 4,5% samkvæmt spánni sem birtist í Peningamálum í dag. Þetta er lítillega meiri vöxtur en spáð var í febrúar. Horfur fyrir næsta ár hafa einnig verið endurskoðaðar upp á við og er spáð 4% hagvexti í stað 3,4% í febrúar. Á innlendum vinnumarkaði birtist vöxturinn í örri fjölgun starfa, vaxandi atvinnuþátttöku og minnkandi atvinnuleysi. Langtímaatvinnuleysi er nánast horfið og erfiðara fyrir fyrirtæki að ráða í laus störf en verið hefur um langt skeið.

Í tilkynningu Seðlabankans segir að þrátt fyrir miklar launahækkanir og vaxandi framleiðsluspennu hefur verðbólga haldist undir markmiði um ríflega tveggja ára skeið. Í apríl mældist verðbólga 1,6%, svipuð og hún var fyrir ári. Sem fyrr vegast þar á annars vegar innlendur verðbólguþrýstingur og hins vegar áhrif gengishækkunar krónunnar og óvenju lítillar alþjóðlegrar verðbólgu. Að öðru óbreyttu er útlit fyrir að verðbólga verði undir markmiði fram eftir ári en aukist þegar innflutningsverðlag hættir að lækka. Samkvæmt spá Seðlabankans verður verðbólga 3% á lokafjórðungi ársins og 4½% á seinni hluta næsta árs en tekur síðan að þokast að markmiði fyrir tilstilli aðhaldssamrar peningastefnu. „Þetta er heldur meiri verðbólga en spáð var í febrúar og skýrist munurinn af því að nú eru horfur á meiri vexti efnahagsumsvifa en þá var gert ráð fyrir,“ segir í tilkynningu.

„Alþjóðleg verðlagsþróun og sterkari króna hafa veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt. Að sama skapi eru vísbendingar um að peningastefnan hafi skapað verðbólguvæntingum traustari kjölfestu en áður og stuðlað að því að verðbólga hefur aukist minna en vænta mátti í kjölfar mikilla launahækkana. Það breytir hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK