Alvarleg staða í útboðsmálum

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar. mbl.is/Eggert

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, telur það vera alvarlegt mál hversu lítið opinberar stofnanir bjóða út og segir vanta skilning á að verið sé að sýsla með peninga allra landsmanna.

Þetta kom fram í máli Guðlaugs á fundi Félags atvinnurekenda um útboðsmál í morgun. Yfirskrift fundarins var: „Er ríkið lélegur neytandi? Vannýtt tækifæri í innkaupum og útboðsmálum ríkisins.“ 

Guðlaugur segir að þær stofnanir sem ekki bjóða út hljóti að hafa of mikið á milli handanna og telur að til þeirra ætti að skera niður.

Hann benti á að ríkið kaupir vörur og þjónustu fyrir um 88 milljarða króna á ári. Einföld skoðun á útboðsmálum ríkisstofnana var nýlega framkvæmd af hálfu meirihluta fjárlaganefndar og var sendur út spurningalisti til hlutaðeigandi. Þar var einungis spurt um innkaup á þjónustu sem auðvelt ætti að vera að bjóða út, líkt og tölvuþjónusta, raforka, fjarskipti, iðnaðarmenn o.fl. 

Minnihluti boðinn út

Spurningarnar náðu til 160 stofnana og var niðurstaðan að innan við 50% var boðið út. Almenn rekstarráðgjöf er sjaldnast sett í útboð, eða í 1,3% tilvika, en fjarskiptaþjónusta er oftast boðin út, eða í 45,6% tilvika.

Það sem auðveldlega ætti að vera hægt að bjóða út, líkt og rafmagn, var boðið út í um 7,5% tilvika.

Guðlaugur sagði þetta vera alvarlega stöðu og bætti við að málið sneri ekki síður að heilbrigðri og eðlilegri samkeppni líkt og að hagkvæmari innkaupum. 

Þegar samningar nást um gott verð er einnig nauðsynlegt að nýta þá sagði Guðlaugur og vísaði í dæmaskyni til rammasamnings um bensínkaup ríkisins. Samkvæmt honum býður t.d. Olíuverzlun Íslands upp á besta afsláttinn en samt sem áður fara einungis um 42% viðskipta ríkisins þangað. 

Sparnaður þegar kominn í ljós

Guðlaugur fór yfir niðurstöður starfshóps um útboðsmál er starfaði undir forystu Jóns Björnssonar. Hópurinn hefur m.a. lagt til að langtímaáætlanir í innkaupum verði gerðar og að þær verði tengdar við framkvæmd fjárlaga. Þá þurfi ríkið að beita innkaupaaðferðum með markvissari hætti, t.d. með sameiginlegum innkaupum, örútboðum og fækkun byrgja. Auk þess þurfi að búa til hvatakerfi fyrir stofnanir og birgja.

Ráðist hefur verið í vinnu samkvæmt þessum tillögum og til marks um árangurinn vísaði Guðlaugur til nýlegra örútboða á tölvum og pappír.

Niðurstaðan í þessum útboðum var að tölvurnar fengust á 25% lægra verði og skilaði það sér í 10 til 12 milljóna króna sparnaði fyrir átta stofnanir. Pappírinn fékkst á 30% afslætti til viðbótar við það sem er í rammasamningi. Þetta leiddi til fjögurra milljóna króna sparnaðar hjá fjórtán stofnunum. 

Með einföldu örútboði náðist mikill sparnaður í tölvukaupum.
Með einföldu örútboði náðist mikill sparnaður í tölvukaupum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK