Hröð hækkun skilar hraðri lækkun

Miklar lækkanir hafa verið á mörkuðum á síðasta mánuði.
Miklar lækkanir hafa verið á mörkuðum á síðasta mánuði. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Á síðasta mánuði hefur markaðsvirði Icelandair lækkað um tæp fjórtán prósent og erfitt er að finna dæmi um viðlíka lækkun þegar litið er til síðustu missera. Kristján Markús Bragason, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir að síðustu uppgjör hafi ekki lagt grunn að svona mikilli lækkun.

Lækkanir einskorðast þó ekki við Icelandair heldur eru þær víða í Kauphöllinni.

Taktinn má rekja tæpan mánuð aftur í tímann þegar skráð félög fóru að birta uppgjör fyrsta ársfjórðungs. Mörkuðu uppgjör Icelandair og Símans sérstök þáttaskil og hófst þá myndarleg hrina. OMX18, úrvalsvísitala Kauphallarinnar, hefur lækkað um 4,75 prósent frá upphafi ársins en OMXIGI vísitalan, heildarvísitala Kauphallarinnar sem leiðrétt er fyrir arðgreiðslum, hefur lækkað um 1,4 prósent á sama tímabili.

Lækkanir einstakra félaga eru mismunandi en líkt og áður segir hefur dýfan verið skörpust hjá Icelandair.

Fleiri fjárfestingarkostir 

Aðspurður um skýringar á ástandinu í Kauphöllinni segir Kristján að í dag bjóðist töluvert af öðrum fjárfestingarkostum sem minnka flæði nýrra fjármuna inn á hlutabréfamarkaðinn. Það skýri m.a. það að fjárfestar grípa seinna en ella inn í við lækkandi verð til að nýta sér kaupatækifæri sem myndast við slíkar lækkanir.

Hjarðhegðun sé mögulega einnig hluti skýringar. Aukning í sjóðsfélagalánum lífeyrissjóðanna hafi þá einnig áhrif og með afnámi fjármagnshafta opnist augljóslega enn aðrir fjárfestingarmöguleikar.

Gleymist að horfa í baksýnisspegilinn

„Það er lítið í síðustu uppgjörum sem gefur manni grunn til að reikna sig niður á þessar lækkanir sem orðið hafa,“ segir Kristján Markús.

Hann bendir á að það gleymist þó gjarnan að horfa í baksýnisspegilinn í svona ástandi og vísar til þess að hækkanir á mörkuðum séu miklar þegar horft er til síðustu tólf mánaða. Til að mynda hækkaði K-90 hlutabréfavísitala Íslandsbanka um 47 prósent á árinu 2015 og er það arðsemi að teknu tilliti til arðgreiðslna.

„Í því samhengi má benda á að þrátt fyrir að mánaðarlækkunin nemi tæpum 14 prósentum hjá Icelandair hafa hlutabréf félagsins hækkað um 46,5 prósent á síðustu 12 mánuðum að teknu tilliti til arðs.“

Látið eins og himinn og jörð séu að farast

„Menn bregðast mjög hratt við uppgjörum sem annað hvort eru í þyngri kantinum, eða kannski ekki slæm í sjálfu sér, en kannski ekki í takt við það sem ýtrustu væntingar sögðu til um,“ segir Kristján.

Hann bendir á að sumir fjárfestar geti verið skuldsettir á móti hlutabréfaeign sinni og þoli því ekki mikla lækkun. „Þegar menn fara að sjá rauðar tölur láta þeir eins og himinn og jörð séu að farast en þegar bréfin hækka kannski um fimmtíu prósent á einu ári virðast þeir nota önnur og mun hóflegri lýsingarorð,“ segir hann. „Í dag hefur K-90 vísitalan hækkað um 29% miðað við stöðu vísitölunnar hinn 20. maí 2015 og það er lykilatriði“, segir Kristján.

„Það er bara þannig á markaði eins og íslenska hlutabréfamarkaðnum, þar sem mjög miklar og hraðar hækkanir verða, þá verða líka hraðar lækkanir. Ef fjárfestar hafa ekki áhuga á slíku flökti í arðsemi fjárfestinga sinna, þá eru þeir einfaldlega ekki á réttum stað með sínar fjárfestingar“

Uppgjörið réttlætir ekki svona lækkun

„Í uppgjöri Icelandair eru einhver frávik frá því sem menn væntu en það var þó langt frá því að réttlæta svona. Síðan aðlöguðu stjórnendur félagsins sjálfir rekstraráætlun ársins um óverulega fjárhæð sem skipti ekki öllu máli varðandi framtíðarvirði rekstursins, en það var það sem virðist hafa ýtt þessu af stað, og hækkandi olíuverð hjálpar klárlega ekki,“ segir Kristján.

Aðspurður um dæmi um lækkanir á borð við það sem verið hefur hjá Icelandair segir Kristján að helst mætti líta til Össurar. Það sé hins vegar mjög stórt félag þar sem markaðsvirði getur sveiflast mikið. Ástæðan þar sé mjög lítið flot í bréfum félagsins og að óveruleg viðskipti geti stundum haft ótrúleg áhrif. Samanburðurinn sé því erfiður. 

„En þú finnur varla meiri lækkun en þetta hjá félagi eins og Icelandair sem er með skilvirka verðmyndun og eðlilega dýpt í verðmyndum á markaði.“

Mörg skráð félög hafa verið að birta miklar kostnaðarhækkanir vegna launahækkana og Kristján bendir á að aukinn kaupmáttur eigi að fylgja þar sem verðbólgan er mjög hófleg. „Hjá ákveðnum félögum höfum við hinsvegar ekki séð þau áhrif á tekjur félaganna og mætti þar nefna símafyrirtækin bæði,“ segir Kristján.

Kristján Markús Bragason, umsjónarmaður hlutabréfagreiningar hjá Greiningu Íslandsbanka.
Kristján Markús Bragason, umsjónarmaður hlutabréfagreiningar hjá Greiningu Íslandsbanka. Kristinn Ingvarsson
Uppgjör Icelandair réttlætir ekki jafn mikla hækkun og verið hefur.
Uppgjör Icelandair réttlætir ekki jafn mikla hækkun og verið hefur. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir