Notuðu ál úr gömlum flugvélaflökum

Grétar Már og Leifur leiddu Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og ...
Grétar Már og Leifur leiddu Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um sýninguna af vörum Málmsteypunnar Hellu að loknum ársfundi Samáls í Hörpu í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar Málmsteypan Hella var stofnuð fyrir 67 árum voru við lýði það ströng innflutningshöft að notast var við brotamálm úr flugvélaflökum frá stríðsárunum til þess að steypa hina ýmsu muni. Það var eina álið sem var fáanlegt á þeim tíma. Nú eru breyttir tímar, að sögn Grétars Más Þorvaldssonar, sem rekur fyrirtækið ásamt föður sínum Þorvaldi Hallgrímssyni og bróðurnum Leifi.

Fyrirtækið framleiðir nú alls konar vörur og muni sem eru hluti af daglegu lífi Íslendinga og segir Grétar Már í samtali við mbl.is að reksturinn hafi gengið vel. Fyrirtækið hafi siglt í gegnum ólgusjó efnahagslægðarinnar 2008 og eins staðið af sér miklar lækkanir á álverði. Kúnnahópurinn, allt frá stóriðju og sjávarútvegi til íslenskra heimila, fari sístækkandi, en nú til dags þjónustar fyrirtækið einkum iðnað af ýmsu tagi.

Að loknum ársfundi Samáls í Hörpu á miðvikudaginn var opnuð sýning á vörum og gripum af ýmsum toga sem framleiddir hafa verið hjá Málmsteypunni Hellu. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var leidd um sýninguna af bræðrunum, Grétari Má frummótasmíðameistara og Leifi málmsteypumeistara. Garðar Eyjólfsson, lektor og fagstjóri vöruhönnunar við Listaháskóla Íslands, kom að uppsetningu sýningarinnar og margar kynslóðir lögðu hönd á plóg á sýningunni sjálfri, meðal annars við pönnukökubakstur á pönnum sem Hella framleiðir. Grétar segir að pönnukökurnar hafi vakið mikla lukku, en margir kannast eflaust við pönnurnar frá Hellu sem hafa enst kynslóð fram af kynslóð.

Ýmislegt fleira er að finna á sýningunni sem sýnir framleiðsluferlið í fyrirtækinu. Til dæmis er til sýnis jeppi frá Arctic Trucks, en Hella býr til felgurnar fyrir það fyrirtæki, sem og ýmsa íhluti.

Hófust handa í gamalli hlöðu

Fyrirtækið var stofnað 11. maí 1949, en starfsemin hófst í gamalli hlöðu við Haga í Reykjavík. Að stofnuninni stóðu þeir Leifur Halldórsson módelsmiður og Róbert Færgeman, danskur málmsteypumaður, í félagi við góðan hóp manna. Þorvaldur Hallgrímsson tók við rekstrinum þegar heilsu Leifs fór að hraka og hefur hann haldið um stjórnartaumana í yfir þrjátíu ár, ásamt þeim Grétari Má og Leifi. Starfa nú sjö manns hjá málmsteypunni.

Eins og áður sagði voru ströng innflutningshöft við lýði þegar fyrirtækið var stofnað og þurfti því að afla allra hluta, efna og tækja hér innanlands. Hráefnið var gamlir brotamálmar og var álið að mestu fengið úr gömlum flugvélaflökum sem menn gengu jafnvel upp til fjalla til að sækja, að sögn Grétars Más.

„Fyrirtækið byrjaði að framleiða vörur sem fengust ekki inn í landið, svo sem búsáhöld og ýmislegt tengt sjávarútvegi. Það voru greinilega tækifæri á markaði til að bæta við og félagarnir stofnuðu fyrirtækið með það í huga,“ segir hann. Fyrstu árin voru því fyrirtækinu erfið en það átti eftir að breytast, sérstaklega eftir að álverið í Straumsvík tók til starfa um 1970.

Pönnur, pottar og ýmsar vörur til eldunar voru áberandi í framleiðslunni á fyrstu árunum og er raunar margt af því framleitt enn þann dag í dag, eins og pönnukökupannan. Nú framleiðir málmsteypan hins vegar fyrir iðnað af ýmsu tagi, til dæmis stóriðjuna og sjávarútveg. „Við erum að framleiða fyrir stóran kúnnahóp, allt frá stóriðju til lítilla heimila,“ segir Grétar Már.

Fyrirtækið framleiðir alls konar búnað, margt til notkunar í vélum og tækjum, skautlása, upphækkunarsett fyrir bíla, ýmis tæki til matvælavinnslu, vegvísa og skilti, svo örfá dæmi séu tekin. Þá nefnir Grétar einnig lokið á ruslalúgunni sem má finna í flestum fjölbýlishúsum. Raunar geri fæstir sér eflaust grein fyrir því hversu oft þeir noti vörur frá Hellu dagsdaglega.

Hér að neðan er saga og starfssemi Málmsteypunnar Hellu í Hafnarfirði rakin í máli og myndum en myndbandið var frumsýnt á ársfundi Samáls í síðustu viku.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir