Vilja setja kvóta á evrópskt efni

Reed Hastings, forstjóri Netflix.
Reed Hastings, forstjóri Netflix. AFP

Efnisveiturnar Netflix og Amazon gætu þurft að bjóða evrópskum áhorfendum upp á meira evrópskt efni ef tillögur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins ná fram að ganga.

Í frétt Financial Times kemur fram að framkvæmdastjórnin hafi skilað inn tillögum um „Evrópukvóta“ á kvikmyndum og þáttaröðum. Samkvæmt reglunum þarf 20% af öllu kvikmynda- og sjónvarpsefni þeirra sem boðið er upp á í Evrópu að vera evrópskt. 

Frakkar hafa verið í forystu ríkja sem vilja herða evrópskar reglur er varða efnisveitur til þess að vernda innlendan kvikmynda- og sjónvarpsþáttaiðnað. Með tillögum framkvæmdastjórnarinnar er hugmyndin að setja sams konar reglur á efnisveitur og gilda um innlendar sjónvarpsstöðvar. 

Netflix lýsir yfir andstöðu við reglurnar

Forsvarsmenn Netflix hafa lýst yfir óánægju með hugmyndir framkvæmdastjórnarinnar. „Fastir kvótar á evrópsku efni gætu kæft efnisveitumarkaðinn,“ segir í umsögn fyrirtækisins við tillögurnar. „Skylda til að bjóða upp á ákveðið efni gerir viðskiptaáætlanir fyrirtækjanna flóknari,“ stendur enn fremur í umsögninni.

Í leiðara Fréttablaðsins í gær kom fram að 365 sé að kanna möguleikann á því að flytja útgáfu prentmiðla til Bretlands og er umhverfi einkarekinna sjónvarpsstöðva á Íslandi gagnrýnt. Meðal annars er þýðingarskylda og reglur um sýningu bannaðra mynda gagnrýnd og bent á að Netflix komist fram hjá þessum reglum. 

Sjá frétt mbl.is: 365 íhugar að flytja útgáfu til Bretlands

Þá kom fram í Morgunblaðinu fyrr í þessum mánuði að forsvarsmenn Símans hafi brugðið á það ráð að stofna félag í Lúxemborg utan um sjónvarpsstarfsemi félagsins til að tryggja jafnræði á milli sín og erlendra keppinauta.

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðlunar og markaða hjá Símanum, sagði að fyrirtækinu hafi verið nauðugur einn kostur að fara þessa leið, ekki síst þar sem stjórnvöld hafi í seinni tíð hætt að gera greinarmun á línulegri og ólínulegri útsendingu í sjónvarpi. 

Sjá frétt mbl.is: Flýja með starfsemina

Tillögur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins innihalda fleiri tillögur um breytingu á regluverki sjónvarps- og efnisveituútsendinga. 

Meðal annars verður lagt bann við „geoblocking“ þar sem efnisveitur bjóða notendum upp á mismunandi kjör eftir því í hvaða landi þeir eru staðsettir. 

Amazon hefur nú opnað búð í raunheimum.
Amazon hefur nú opnað búð í raunheimum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK