Kaupverð við smálán yfirskin

Kredia og Smálán gera kröfu um að viðskiptavinir kaupi bók …
Kredia og Smálán gera kröfu um að viðskiptavinir kaupi bók með smáláninu.

Neytendastofa hefur lagt hvora 750 þúsund króna sektina á sitt smálánafyrirtæki, Kredia og Smálán, vegna kostnaðar í tengslum við lán sem félögin veita og upplýsingagjafar við lánveitingu.

Með þessu hefur Neytendastofa lokið ákvörðunum gagnvart fyrirtækjunum.

Málið snýr að því að félögin bjóða neytendum kaup á rafbókum sem hægt er að óska eftir láni fyrir. Neytendur geta um leið óskað eftir öðru láni, ótengdu bókakaupaláninu. Bæði Kredia og Smálán litu svo á að þar sem um væri að ræða lán fyrir kaupum á hlut kæmi kaupverð ekki til álita þegar reiknaður væri út heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar.

Kaupverð rafbókanna kostnaður við lántöku

Niðurstaða Neytendastofu var hins vegar sú að líta bæri á kaupverð rafbókanna sem kostnað við lántöku. Byggði stofnunin þá niðurstöðu m.a. á því að um er að ræða rafbækur sem eru aðgengilegar öllum á netinu án greiðslu. Því liti stofnunin svo á að kaupverðið væri yfirskin og tilraun til að fara fram hjá fyrri ákvörðun stofnunarinnar og ákvæðum laga um neytendalán.

Kostnaðurinn við lánið fer upp fyrir leyfilegt hámark samkvæmt lögum …
Kostnaðurinn við lánið fer upp fyrir leyfilegt hámark samkvæmt lögum um neytendalán. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fer yfir leyfilegan hámarkskostnað

Þegar hið svokallaða kaupverð er tekið með í útreikning heildarlántökukostnaðar og árlegrar hlutfallsölu kostnaðar fer árleg hlutfallstala kostnaðar upp fyrir leyfilegt hámark samkvæmt lögum um neytendalán og var félögunum því bannað að innheimta svo háan kostnað í tengslum við lánveitingu.


Neytendastofa gerði einnig athugasemdir við að upplýsingagjöf félaganna við lánveitingu væri ekki fullnægjandi þar sem upplýsingar skortir bæði í staðlað eyðublað sem afhenda á neytendum fyrir lántöku og í lánssamning. Þá gerði Neytendastofa athugasemdir við að staðlað eyðublað sé ekki afhent neytendum áður en lánsumsókn er afgreidd.

Í ljósi þessara brota lagði Neytendastofa stjórnvaldssekt að fjárhæð 750.000 krónur á hvort fyrirtæki.

Hér má lesa ákvörðunina gagnvart Kredia.

Hér má lesa ákvörðunina gagnvart Smálánum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK