450% verðbólga í Venesúela

Skortur er á öllum helstu nauðsynjavörum í Venesúela. Efnahagur landsins …
Skortur er á öllum helstu nauðsynjavörum í Venesúela. Efnahagur landsins er í algjörum molum. AFP

Skortur er á meira en 80% af öllum helstu nauðsynjavörum í Venesúela, þar á meðal matvælum og lyfjum, samkvæmt nýrri könnun sem fyrirtækið Datanalisis hefur gert.

Skorturinn er aðeins meiri í verslunum en á heimilum, að sögn Luis Vicente Leon, framkvæmdastjóra Datanalisis.

Efnahagur landsins er í molum og hefur skorturinn á lífsnauðsynlegum vörum ekki verið eins mikill og alvarlegur í mörg ár.

„Hnignunin hefur aukist með veldisvexti undanfarna tvo mánuði,“ sagði Leon.

Fyrirtækið býst við því að verðbólga verði 450% í ár og að kaupmáttur muni verða um 40 prósentum minni en í fyrra. Samkvæmt nýjustu opinberu tölunum, frá því í desember 2015, var verðbólga 180,9%.

Mikill skortur á nauðsynjavörum og þrálát verðbólga hefur leitt til þess að í það minnsta tveir af hverjum þremur íbúum landsins verða sér úti um slíkar vörur á svörtum markaði.

Um 86% Venesúelabúa kenna vinstristjórn Nicolas Maduros, forseta landsins, um stöðuna.

Maduro hefur hins vegar haldið því fram að voldug fyrirtæki séu, með hjálp Bandaríkjastjórnar, í efnahagslegu stríði við landið. Hann telur jafnframt að ástandið megi að hluta rekja til lágs olíuverðs, en olía er helsta útflutningsvara Venesúela.

Vel yfir 70% landsmanna telja hins vegar að ásakanir forsetans séu úr lausu lofti gripnar, að því er segir í frétt AFP.

Nicolas Maduro, forseti Venesúela.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK