Brugga einungis 30 lítra af sjómannabjór

Mjög takmarkað magn verður til af Togaranum, eða einungis 30 …
Mjög takmarkað magn verður til af Togaranum, eða einungis 30 lítrar.

The Brothers Brewery sem er eitt minnsta brugghús Íslands og staðsett í Vestmannaeyjum mun setja í sölu á veitingastaðnum Einsi kaldi bjórinn Togarinn um sjómannadagshelgina. Aldrei áður hefur verið bruggaður sérstakur bjór tileinkaður sjómönnum Íslands í tilefni sjómannadagshelgarinnar.

The Brothers Brewery fékk starfsleyfi í upphafi ársins 2016 en upphaf þess má rekja til ársins 2012 þegar stofnendur þess byrjuðu að ræða það sín á milli að brugga sinn eigin bjór.

Fyrst um sinn átti bruggunin hjá stofnendum að vera eingöngu áhugamál en fljótlega var farið að ræða það og skoða af alvöru að opna litla bruggverksmiðju í Vestmannaeyjum. Í dag eru bjórar The Brothers Brewery eingöngu seldir á veitingastaðnum Einsa kalda í Vestmannaeyjum en á næstu vikum kemur fyrsti bjórinn til sölu á veitingastaði í miðborg Reykjavíkur.

Nefndur í höfuðið á Ragga togara

Bjórinn sem The Brothers Brewery bruggar núna í tilefni sjómannadagsins hefur fengið nafnið Togarinn. Togarinn er viðurnefni á sjómanninum Ragnari Þór Jóhannssyni sjómanni á Kap VE en Ragnar er þekktastur sem Raggi togari í Vestmannaeyjum. Ragnar Þór byrjaði sinn sjómannsferil árið 2004 þá sem háseti á Narfa VE. 

The Brothers Brewery er eitt minnsta brugghús Íslands og er …
The Brothers Brewery er eitt minnsta brugghús Íslands og er staðsett í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Einungis 30 lítrar í boði

Togarinn er af tegundinni Imperial Stout og er áfengismagnið í honum yfir 10%. Togarinn er dökkur bjór og var reynt við bruggun hans að hafa hann eins dökkan og hægt var.

Togarinn hefur nú gerjast í nokkrar vikur með eikarspíral í sér sem lá áður í nokkrar vikur í eðalviskíi. Eikarspíralinn flytur því bragð og ilm af viskítónum yfir í Togarann. 

Bjórinn verður til í mjög litlu magni eða um 30 lítrum og var honum meðal annars tappað á tólf númeraðar 0,75 lítra flöskur. The Brothers Brewery hefur ákveðið að gefa eina flösku til sjómannadagsráðs sem mun bjóða hana upp á sjómannadansleik sínum í Vestmannaeyjum 5. júní næstkomandi til styrktar góðu málefni. Gunnar Júl Art hannaði umbúðir Togarans og skarta þær mynd af Ragnari Þór og verða flöskurnar númeraðar sérstaklega.

The Brothers Brewery hafa ákveðið að heiðra sjómenn og brugga sérstakan sjómannadagsbjór á hverju ári og er strax farið að huga að því að velja þann sjómann sem fær þann heiður að bera nafn næsta sjómannadagsbjórs.

The Brothers Brewery verður ásamt fleiri íslenskum bjórframleiðendum á bjórhátíðinni á Hólum 4. júní næstkomandi að kynna vörur sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK