Skaðabótaskyld vegna nautabökufréttar

Matvælastofnun rannsakaði nautabökurnar og birti frétt um að þær innihéldu …
Matvælastofnun rannsakaði nautabökurnar og birti frétt um að þær innihéldu ekki nautakjöt. Stofnunin hefði átt að meðhöndla málið öðruvísi að mati dómstóla. AFP

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á að Matvælastofnun sé skaðabótaskyld vegna fréttar sem birt var um kjötlausar kjötbökur frá Gæðakokkum. Málið hafði alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið, að því er segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. 

Dómurinn féll í gær og felur hann í sér viðurkenningu á skaðabótaskyldu Matvælastofnunar en ekki er kveðið á um bótafjárhæð.

Frétt mbl.is: Ekkert kjöt í nautakjötsbökunni

Málið kom upp í mars 2013, en í fréttinni umdeildu, sem birt var á vefsíðu Matvælastofnunar, sagði að rannsókn hefði sýnt fram á að ekkert kjöt hefði fundist í nautaböku frá fyrirtækinu Gæðakokkum í Borgarnesi. Nautabakan átti samkvæmt innihaldslýsingu að innihalda 30% nautahakk í fyllingu. Einnig kom fram að lambahakksbollur sama framleiðenda, sem sagðar voru innihalda lamba- og nautakjöt, hefðu eingöngu innihaldið lambakjöt.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að Gæðakokkar hafi borið ábyrgð á því að nautabökurnar sem rannsakaðar voru hefðu ekki innihaldið nautakjöt í samræmi við innihaldslýsingu.

Þrátt fyrir það var að mati dómstólsins enginn vafi á því að tilkynningin hefði með beinum hætti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið og að fyrirtækið hefði lögvarða hagsmuni að því að fá bótaskyldu Matvælastofnunar viðurkennda.

Skaðabótaskylda Matvælastofnunar var viðurkennd.
Skaðabótaskylda Matvælastofnunar var viðurkennd. mbl.is/Sigurður Bogi

Áttu að kynna niðurstöðurnar fyrir birtingu

Í forsendum dómsins er vikið að því að stofnunina hafi brostið vald til að taka ákvörðun í málinu og að hún hafi gengið inn á verksvið Heilbrigðisnefndar Vesturlands. Ætlast hefði mátt til að frekari rannsóknir yrðu framkvæmdar áður en farið hefði verið í birtingu fréttarinnar, þar sem fyrirsjáanlegt hefði verið að birtingin myndi hafa alvarlegar afleiðingar.

Sömuleiðis er fundið að því að fréttin hafi ekki verið efnislega rétt, þar sem fullyrðing um að innköllun hefði verið framkvæmd hefði ekki staðist. Þá taldi dómstólinn að stofnuninni hefði borið að kynna niðurstöður rannsóknanna fyrir fyrirtækinu áður en þær voru birtar opinberlega og gefa því tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum sínum.

Skoða áfrýjun

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að stofnunin muni í framhaldinu fara yfir forsendur dómsins með lögfræðingi stofnunarinnar til að meta hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Dómur Héraðsdóms.

Ekkert kjöt reyndist vera í nautaböku frá Gæðakokkum árið 2013.
Ekkert kjöt reyndist vera í nautaböku frá Gæðakokkum árið 2013.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK