Aflandskrónuútboð í dag

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Golli

Aflandskrónuútboð Seðlabanka Íslands hefst í dag klukkan tíu og stendur til klukkan tvö eftir hádegi. Þar býðst bankinn til þess að kaupa svokallaðar aflandskrónur í skiptum fyrir reiðufé í evrum. Útboðið er liður í heildstæðri aðgerðaáætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta.

Nokkrar breytingar hafa orðið á fyrirkomulagi útboðsins eftir að það var fyrst kynnt.

Tilkynnt var um síðustu breytinguna á mánudaginn en hún felur í sér að bankinn hefur fallið frá áskilnaði um að hafna öllum tilboðum þar sem gengið færi undir 190 krónur á móti hverri evru. Nú hefur bankinn tilkynnt að hann muni taka efnislega afstöðu til allra tilboða sem berast, óháð fyrrnefndu lágmarksgengi.

Eftir sem áður mun verð seldra evra í útboðinu ráðast af þátttöku í útboðinu. Verði samþykkt tilboð undir 50 milljörðum króna verður útboðsverð 210 krónur á hverja evru. Fer verð á evru stiglækkandi eftir því sem þátttaka í útboðinu verður meiri. Fari fjárhæð aflandskrónueigna sem boðnar verða til sölu yfir 175 milljarða króna mun útboðsverðið nema 190 krónum á evru. Núverandi gengi evru er um 139 krónur.

Frestur til að skila inn tilboðum rennur út í dag klukkan 14. Niðurstöður útboðsins verða birtar á heimasíðu Seðlabankans ekki síðar en kl. 9:00 miðvikudaginn 22. júní.

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Átök í aðdraganda útboðs

Fram kemur í ViðskiptaMogganum í dag að í aðdraganda þess að Seðlabankinn tilkynnti skilmála vegna útboðsins hafi slegið í brýnu milli fulltrúa stjórnvalda og þeirra sem gæta hagsmuna stærstu eigenda aflandskróna í landinu. Þær eignir sem falla undir skilgreininguna á aflandskrónum eru í dag metnar á um 320 milljarða íslenskra króna. Þannig munu fulltrúar krónueigendanna, samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans, hafa gengið af fundi með fulltrúum Seðlabankans í aðdraganda þess að bankinn kynnti skilmála sína í útboðinu.

Í kjölfar þess að útboðsskilmálarnir voru kynntir 25. maí síðastliðinn, tjáðu fulltrúar tveggja sjóða sem eiga umtalsverðan hluta aflandskrónueignanna sig við viðskiptablaðið Wall Street Journal, þar sem þeir lýstu því yfir að þeir myndu ekki taka þátt í útboðinu og hygðust halda í krónueignir sínar hérlendis. Þar var um að ræða fyrirtækin Eaton Vance og Loomis Sayles & Co. Fyrrnefnda fyrirtækið á um 40 milljarða í aflandskrónum en það síðarnefnda um 33 milljarða.

Í kjölfar hinna harkalegu viðbragða, sem komu fram þegar aðferðafræðin að baki útboðinu var kynnt, hefur Seðlabankinn í tvígang tilkynnt um breytingar á skilmálum þess.

Þær breytingar sem Seðlabankinn gerði á fyrrnefndum skilmálum hafa, samkvæmt áreiðanlegum heimildum ViðskiptaMoggans, valdið því að ákveðnir eigendur aflandskróna, sem ekki hugðust upphaflega taka þátt í útboðinu, kanna nú möguleika á því að leggja inn tilboð.

Upplýsingar um útboðið á vef Seðlabankans

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK