MS misnotaði markaðsráðandi stöðu sína

Samkeppniseftirlitið hefur lagt 480 milljóna króna stjórnvaldssekt á Mjólkursamsöluna vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum. Í ákvörðun eftirlitsins kemur fram að MS hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum á óeðlilega háu verði.

Á sama tíma fékk MS sjálft og tengdir aðilar þetta hráefni á mun lægra verði og að auki undir kostnaðarverði.

Samkeppniseftirlitið hafði áður birt ákvörðun í málinu en áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi þá ákvörðun úr gildi og lagði fyrir Samkeppniseftirlitið að taka á ný afstöðu til málsins þar sem MS hafði lagt fyrir nefndina ný gögn sem ekki höfðu verið afhent eftirlitinu við meðferð málsins.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins kemur fram að ógerilsneydd mjólk, öðru nafni hrámjólk, er grundvallarhráefni við framleiðslu á mjólkurvörum og skiptir verðlagning því miklu máli fyrir öll fyritæki sem framleiða og selja mjólkurvörur. MS er eina fyrirtækið á Íslandi sem selur hrámjólk í heildsölu til annarra mjólkurvöruframleiðanda auk þess að nýta hana í eigin framleiðslu.

Er MS í afar sterkri stöðu á mjólkurmarkaði og tekur fyrirtækið við um 90% af þeirri hrámjólk sem bændur framleiða. Þá er MS í nánum tengslum við næst stærsta fyrirtækið á mjólkurmarkaði, Kaupfélag Skagfirðinga og eru þessi fyrirtæki sögð nær einráð í mjólkurviðskiptum á Íslandi, samkvæmt Samkeppniseftirlitinu.

Málið komst upp vegna mistaka

Fyrirtækið Mjólkurbúið kærði MS til Samkeppniseftirlitsins í ársbyrjun 2013. Var það eftir að Mjólkurbúið varð þess áskynja í árslok 2012 að það var að greiða umtalsvert hærra verð fyrir hrámjólk en keppinauturinn Mjólka. Kom þetta í ljós þegar MS fyrir mistök sendi félaginu reikning fyrir kaup á hrámjólk sem ætlaður var Mjólku.

Segir í úrskurði Samkeppniseftirlitsins að skýringar MS hafi verið bæði á reiki og rangar.

Upphaflega hafi MS gefið þá skýringu að verðið á hrámjólk til hinna ótengdu aðila væri í samræmi við heildsöluverð sem verðlagsnefnd búvara hefði ákveðið. Verðlagsnefndin hafi hins vegar upplýst Samkeppniseftirlitið um að hún hefði ekki á rannsóknartímabilinu ákveðið heildsöluverð á hrámjólk. Verðið sem MS kaus að miða við hafi verið heildsöluverð sem nefndin ákvað á unninni vöru, þ.e. gerilsneyddri nýmjólk. Með öðrum orðum hafi MS selt hinum ótengdu samkeppnisaðilum hið mikilvæga hráefni sem miðaðist við unnar mjólkurvörur. Þannig voru hinir ótengdu keppinautar knúnir til að greiða tvisvar sinnum fyrir sömu kostnaðarliðina við frumvinnslu mjólkurinnar.

Þá gaf MS þá skýringu að sala á hrámjólk á hinu lága verði til KS og Mjólku II væri verðtilfærsla sem búvörulög heimiluðu. Síðar hafi MS sagt að þetta hafi ekki verið verðtilfærsla.

Þá hafi grundvallarsjónarmið MS til stuðnings því að aðgerðir félagsins hafi verið lögmætar, byggst á 71. gr. búvörulaga og samkomulagi við Kaupfélag Skagfirðinga frá 2008. Búvörulögin veittu afurðarstöðum í mjólkuriðnaði heimild til þess að skipta með sér verkum í hagræðingarskyni. Í úrskurðinum segir að MS hafi ítrekað staðhæft að í þessari samvinnu við KS hafi falist að framleiðsla á framlegðarháum mjólkurvörum hafi flust frá KS til MS og KS einbeitt sér að framleiðslu á framlegðarlágum vörum. Til þess að þessi verkaskipting væri raunhæf, hefði þurft að bærta KS framlegðartalið sem af þessu leiddi og það hafi veri gert með því að selja KS hrámjólkina á hinu lága verði. Hafi sú sala verið órjúfanlegur hluti af verkaskiptingu sem löggjafinn heimilaði.

Samkeppniseftirlitið féllst ekki á þessi rök Mjólkursamsölunnar. Segir að þetta sé að öllu leyti rangt. Gögn frá m.a. KS sýndu að hin öndverða gerðist. KS hætti framleiðslu á framlegðarlágum vörum og jók framleiðslu á framlegðarháum vörum. Þegar litið var til heildaráhrifa segir Samkeppniseftirlitið að sá megi að framlegð KS varð mun meiri en MS á rannsóknartímabilinu. Engin þörf hafi verið á að bæta KS upp framlegðartap. Helsta réttlæting MS á aðgerðum sínum byggðist því á röngum staðhæfingum um staðreyndir málsins, samkvæmt Samkeppniseftirlitinu.

„Við munum ekki una þessum úrskurði“

„Við teljum sem fyrr að þessi úrskurður byggi á röngum skilningi samkeppnislaga og búvörulaga og fái ekki staðist. En nú fá æðri stjórnvöld að úrskurða um það þegar þessu verður áfrýjað til áfrýjunarnefndar,“ segir Ari Edwals, forstjóri MS, í samtali við mbl.is.

Ari Edwald, forstjóri MS.
Ari Edwald, forstjóri MS. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

„Við bendum á það að þetta er sambæriilegur úrskurður og féll fyrir tveimur árum síðan. Honum var áfrýjað og hann felldur úr gildi. Við munum fara með þetta mál í sama farveg á ný. Við munum ekki una þessum úrskurði. Við teljum hann rangan. Við erum tilbúnir til að fara með þetta mál alla leið og fyrsta skrefið í því er að áfrýja málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK