Nafnið á sætisbak fyrir 67.000

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar, við bíóhúsið.
Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar, við bíóhúsið. mbl.is/Árni Sæberg

Bíó Paradís er að leita að nýjum vinum um þessar mundir og verður nafn þess er gefur kvikmyndahúsinu 67 þúsund krónur grafið á sætisbakið í einum bíósalnum. Þá verður bíósalur númer þrjú nefndur í höfuðið á þeim sem gefur 1,3 milljónir króna.

Forsvarsmenn Bíó Paradísar á Hverfisgötu opnuðu á dögunum styrktarsíðu þar sem hægt er að styrkja kvikmyndahúsið um allt frá 25 til 10.000 evrur, eða um 3.300 til 1.300.000 krónur. Fjármagnið mun renna í endurbætur á húsinu og bætta þjónustu.

Allar upplýsingar á styrktarsíðunni eru á ensku og segir Ása Baldursdóttir, kynningar- og dagskrárstýra, að verið sé að höfða til erlendra velgjörðarmanna. Hvetur hún Íslendinga sem vilja styrkja reksturinn að kaupa sér árs- eða klippikort hjá kvikmyndahúsinu og nýta sér þjónustuna með þeim hætti. 

Standa að kvikmyndafræðslu fyrir börn 

Bíó Paradís hóf sýningar árið 2010 í húsnæði gamla Regnbogans sem var byggt árið 1977. Kvikmyndahúsið er samstarfsvettvangur flestra þeirra sem koma að kvikmyndamálum í landinu og er það rekið í sjálfseignarstofnun sem starfar ekki í hagnaðarskyni. Stofnaðilar eru fagfélög kvikmyndagerðarmanna, alþjóðlega kvikmyndahátíðin Stockfish og Félag kvikmyndaunnenda. Bíóhúsið hefur meðal annars staðið fyrir gjaldfrjálsri kvikmyndafræðslu fyrir börn allan ársins hring auk þess að vera með ýmsa fría kvikmyndaviðburði.

„Markmiðið er að safna að okkur vinum og velgjörðarmönnum en þetta er mjög þekkt erlendis í listrænum kvikmyndahúsum,“ segir Ása og bendir á að vinabíó Bíó Paradísar í Árósum hafi til að mynda verið með sambærilega fjármögnun lengi í gangi.

Frá sýningu á veggspjöldum í Bíó Paradís.
Frá sýningu á veggspjöldum í Bíó Paradís. mbl.is/Golli

Hjólastólaaðgengi bráðlega frágengið

Spurð um endurbæturnar sem til stendur að ráðast í segir Ása að um almennar framkvæmdir sé að ræða og þá til dæmis að endurnýja sætin í sölunum. 

Á síðasta ári efndi Bíó Paradís til hópfjármögnunar á vefsíðunni Karolina Fund fyrir hjólastólaaðgengi. Söfnunin gekk mjög vel og náðist markmiðið rúmlega. Að sögn Ásu eru lyftur tilbúnar en eftir á að smíða sérstök stæði fyrir hjólastóla í salina. Til stendur að klára það bráðlega og verður hjólastólaaðgengið þar með fljótlega að fullu frágengið.

Nefna sal eða sæti

Ýmsir fjármögnunarmöguleikar eru í boði en lægsta framlagið nemur 25 evrum, eða 3.300 krónum. Sá sem lætur það af hendi uppsker þakklæti bíóhússins, að því er segir á síðunni, auk þess sem honum verður tilkynnt um það sem er í gangi hverju sinni með fréttabréfi. Það sama gildir um þann sem gefur 100 evrur, sem jafngildir um 13.500 krónum.

Næsta mögulega fjárhæð er 500 evrur, eða um 67 þúsund krónur, en líkt og áður segir getur sá sem gefur það valið um nafn til að láta grafa í sætisbak í einum bíósalnum. Þá verður hans einnig getið á vefsíðu bíóhússins.

Þá verður bíósalur númer þrjú nefndur í höfuðið á þeim sem gefur 10.000 evrur, eða 1,3 milljónir króna, en í salnum eru 49 sæti.

Bíósalur númer tvö verður nefndur í höfuðið á þeim sem gefur 30.000 evrur, eða fjórar milljónir króna, en í þeim sal eru 135 sæti.

Þá verður stærsti salur hússins, salur númer eitt, nefndur eftir þeim sem gefur 60.000 evrur, eða um átta milljónir króna. Í salnum eru 205 sæti.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK