Höfnuðu 35 milljóna króna fjárfestingu og fara í skóla

Study Cake var kynnt formlega í ágúst á síðasta ári.
Study Cake var kynnt formlega í ágúst á síðasta ári.

Stofnendur sprotafyrirtækisins Study Cake höfnuðu á dögunum 35 milljóna króna fjárfestingu inn í félagið og hafa ákveðið að koma fyrirtækinu í aðrar hendur. Komust þeir að þeirri niðurstöðu að Study Cake virðist vera vítamín en ekki meðal þegar kemur að vandamálinu sem minnkandi læsi barna er.

Study Cake var kynnt formlega í ágúst 2015 en það tók þátt í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík. Study Cake er smá­for­rit sem býður for­eldr­um upp á að verðlauna börn fyr­ir lest­ur.

Fyrri frétt mbl.is: „Við viljum bara leysa þetta vandamál“ 

Fyrri frétt mbl.is: Vilja ýta undir lestur ungs fólks

„Fólk elskar hugmyndina og tengir við vandamálið, en er yfirleitt ekki tilbúið til þess að greiða fyrir þjónustuna og við vildum ekki tekjuvæða forrit ætlað fyrir börn með auglýsingum,“ segir í opnu bréfi stofnendanna, þeirra Kjart­ans Þórissonar, Harðar Guðmunds­sonar og Kristjáns Inga Geirs­sonar á heimasíðu Study Cake. 

Í bréfinu er farið yfir ástæður þess að stofnendur Study Cake hafi ákveðið að finna nýjan farveg fyrir fyrirtækið. „Í stað þess að fara í útrás, leitum við að mögulegum arftaka hér heima sem gæti séð til þess að appið myndi nýtast vel í íslenskum skólum og heimilum. Minnkandi læsi barna og unglinga er enn vandamál. Vonandi mun tæknin okkar halda áfram að nýtast í baráttunni gegn þessari þróun, jafnvel þótt tækin og tólin verði ekki lengur í okkar höndum,“ segir í bréfinu.

Þar er útlistað hvernig stofnendurnir komust að þeirri niðurstöðu að ekki væri nægilega góður hagfræðilegur grundvöllur fyrir því að fórna næstu 10 árum í vinnu við framleiðsluna. Þrátt fyrir það höfðu fjárfestar boðist til að setja 35 milljónir króna inn í félagið yfir 18 mánaða tímabil. „Þessi fjárfesting átti að ýta undir vöxt fyrirtækisins og var markmiðið sett á að gefa út vöru í Bretlandi,“ segir í bréfinu. 

„Það fylgir því hins vegar mikil ábyrgð að taka við fjármunum annarra. Áður en tekið er við miklum fjármunum sem á að eyða í framleiðslu og kynningu verða frumkvöðlar að spyrja sig mikilvægra spurninga,“ segir í bréfinu.  „Er hægt að tekjuvæða lausnina? Er varan vítamín eða meðal? Eru stofnendur tilbúnir til þess að vinna í þessu næstu 5 til 10 árin, og þar af leiðandi — í okkar tilfelli — er lokamarkmiðið þess virði að fresta háskólanámi um ókomna tíð?“

Eftir mikla umhugsun boðuðu þeir fjárfestana á fund og afþökkuðu peningana. 

„Þetta var ein erfiðasta ákvörðun sem við höfum tekið, en við teljum okkar hagsmunum betur borgið í því að snúa aftur á skólabekk, afla okkur þekkingar og nýrra hugmynda, til þess að geta tekist á við önnur mikilvæg vandamál í framtíðinni.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK