Milljarðar í kaupaukagreiðslur

Tekin verður endanleg ákvörðun um það hvort tuttugu starfsmenn eignarhaldsfélags Kaupþings fái greidda kaupauka upp á tæplega 1,5 milljarða króna samanlagt á aðalfundi félagsins sem fram fer á Hilton Nordica í Reykjavík í dag en tillaga þess efnis verður lögð fram á fundinum.

Að miklu leyti er um að ræða sömu starfsmenn og þegar hafa fengið greidda tugi milljóna króna í kaupauka vegna nauðasamninga Kaupþings um síðustu áramót. Starfsmennirnir eiga í vændum enn frekari greiðslur takist að hámarka virði óseldra eigna félagsins og þar með endurheimtur. Í sumum tilfellum geta starfsmenn fengið um og yfir 100 milljónir króna.

Frétt mbl.is: Gætu fengið 1,5 milljarða í bónusgreiðslur

Líkt og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag var samþykkt áætlun um kaupauka til stjórnar og lykilstarfsmanna eignarhaldsfélagsins LBI ehf. á aðalfundi þess í vor en félagið heldur utan um eignir gamla Landsbankans. Áætlunin var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Haft er eftir Páli Benediktssyni, upplýsingafulltrúa LBI ehf., að áætlunin geri ráð fyrir að kaupaukar verði greiddir út í hlutfalli við þann árangur sem næðist í að afla verðmæta fyrir eignir félagsins. Engir kaupaukar hefðu hins vegar verið greiddir út enn sem komið er.

Frétt mbl.is: LBI samþykkti kaupauka

Fram kemur í umfjöllun um málið í DV í dag að kaupaukakerfi LBI ehf. snúi að þremur stjórnarmönnum félagsins og framkvæmdastjóra þess. Opnað sé á að umræddir einstaklingar geti fengið samanlagt mörg hundruð milljónir króna í kaupauka á komandi árum.

Ennfremur kemur fram að gangi þær forsendur eftir sem kaupaukakerfið byggist á um hámörkun á virði eigna gætu heildargreiðslur til þessara fjögurra æðstu stjórnenda eignarhaldsfélagsins hæglega hlaupið samanlagt á milljörðum króna.

Frétt mbl.is: Telja bónusgreiðslur óásættanlegar

Fyrirhugaðir kaupaukar hafa verið harðlega gagnrýndir. Meðal annars af BSRB. Fram kom í tilkynningu frá félaginu í kjölfar frétta af fyrirhuguðum kaupaukagreiðslum Kaupþings að þær væru óásættanlegar og ættu ekki við í íslensku samfélagi.

Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, benti einnig á að allir starfsmenn spítalans, um 200 manns, hefðu samanlagt á ári um 1,6 milljarða króna í laun. Þeir bæru mikla ábyrgð en enginn færi fram á kaupauka. Hvað þá upp á hundruð milljóna.

Frétt mbl.is: Yfirlæknir gagnrýnir bónusa Kaupþings

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK