Vilja háa skatta á kaupauka

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Hörð orð féllu á Alþingi í dag um fyrirhugaðar greiðslur kaupauka til starfsmanna eignarhaldsfélaga Kaupþings og LBI í umræðum um störf þingsins. Kölluðu þingmenn eftir því að lögum yrði breytt á þann veg að sett yrðu takmörk á kaupaukagreiðslur almennt í stað þess að slíkar takmarkanir ættu aðeins við um fjármálafyrirtæki líkt og staðan er í dag. Einnig var kallað eftir því að beitt yrði skattaúrræðum til þess að gera slíkar greiðslur upptækar.

„Það er hægt að beita lögum til þess að takmarka bónusgreiðslur í slitabúum og fyrirtækjum tengdum þeim. Það er hægt að beita lögum til þess að takmarka rétt manna til bónusgreiðslna hjá eigendum lykilfjármálastofnana í landinu. Það er hægt að beita, eins og Bretar gerðu á sínum tíma, gríðarlega hárri skattlagningu á greiðslur af þessu tagi vilji menn ekki fara löggjafarleiðina þannig að bónusgreiðslurnar verði meira eða minna teknar í ríkissjóð til að mæta velferðarsamfélaginu, útgjöldum í heilbrigðiskerfinu, kjörum aldraðra, öryrkja, fátækra barna og annarra sem á þurfa að halda,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.

Skoraði á eignarhaldsfélögin að endurskoða ákvarðanir sínar

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, skoraði á forsvarsmenn eignarhaldsfélaganna að endurskoða ákvarðanir sínar um kaupauka og sýna samfélagslega ábyrgð. Ef ekki, yrði að leita annarra leiða. Þar á meðal frekari skattlagningar á félögin. Samflokksmaður Elsu Láru, Karl Garðarsson, sagði að þetta yrði að stöðva með öllum ráðum. Íslendingum hefði miðað um margt í rétta átt á undanförnum árum en margt væri greinilega ógert.

„Ég mundi leggja til að við yrðum fljót að setja lög um það að 90–98% skattur yrði lagður á slíkar bónusgreiðslur þannig að við gætum tryggt að þessi framlög slitabúanna sem eru að koma til Íslands færu ekki til fjögurra til fimm manna hóps heldur þjóðarinnar allrar,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í umræðunni.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, kallaði eftir því að þingmenn tækju höndum saman í þessum efnum. Hægt væri að setja lög um að félög eins og eignarhaldsfélög féllu undir reglur um kaupauka sem þegar væru í gildi. Einnig að setja reglur um kaupauka í slíkum félögum eða að gera slíkar greiðslur upptækar með skattlagningu.

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók í sama streng og boðaði að leggja fram lagafrumvarp um „himinháa skatta“ ef fjármálaráðherra gerði það ekki að fyrra bragði.

mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK