Barclays-mál minnir á Al Thani-málið

Í kæru málsins er bankinn sakaður um að hafa fjármagnað ...
Í kæru málsins er bankinn sakaður um að hafa fjármagnað eigin hlutfjáraukningu. AFP

Breski bankinn Barclays lánaði fjárfestum frá Katar þrjá milljarða Bandaríkjadala til að kaupa hluti í bankanum sjálfum sem hlut af 7,3 milljarða punda samkomulagi sem gert var í miðri fjármálakrísunni árið 2008. Sagt er frá málinu á vef Sky.

Þetta kemur fram í kæru sem fjárfestirinn Amanda Staveley hefur lagt fram gegn bankanum, en hún stjórnaði fjárfestingarfélaginu PCP Capital Partners sem kom að 3,5 milljarða punda fjárfestingu í bankanum á þessum tíma fyrir fjárfesta frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Segir Staveley að ólíkt því sem Barclays hafi auglýst árið 2008 þegar hlutabréfaaukningin átti sér stað hafi fjárfesting fjárfestanna frá Katar að fullu verið fjármögnuð með fjármunum frá bankanum sjálfum.

Íslendingar kannast eflast margir við þær lýsingar sem settar eru fram í málinu, en það líkist svokölluðu Al Thani-máli nokkuð. Í því máli lánaði Kaupþing banki sjeik Al Thani frá Katar fyrir kaupum í bankanum upp á 25,7 milljarða í september árið 2008. Stuttu síðar fór bankinn í þrot. Voru stjórnendur bankans og einn eigandi ákærðir og sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í tengslum við söluna og að hafa látið líta út fyrir að Al Thani hefði sjálfur komið með fjármagn að viðskiptunum.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir