Íslenskir fjárfestar, einkum lífeyrissjóðir, munu tapa yfir hálfum milljarði á fjárfestingu í Duchamp. Fyrirtækið hefur rekið verslun í miðborg London auk verslunar á netinu, auk þess sem föt frá Duchamp hafa verið til sölu í vöruhúsum.
Tildrög málsins eru þau að Arev verðbréf stofnaði Arev N II árið 2014. Ellefu lífeyrissjóðir slógust í hluthafahóp sjóðsins og var honum ætlað að vera fagfjárfestasjóður sem fjárfesti í framtaksverkefnum. Arev verðbréf önnuðust stýringu eigna sjóðsins samkvæmt sérstökum eignastýringarsamningi. Í mars árið 2015 gekk Arev N II frá kaupum á Duchamp og reiddi fram 2 milljónir punda sem kaupverð. Jafngildir það röskum 400 milljónum á þáverandi gengi. Seljandinn var félag í eigu slitabús Glitnis. Þetta varð fyrsta og síðasta fjárfesting Arev N II.
Frétt mbl.is: Hættu við kaup á Múrbúðinni
Eins og greint var frá í ViðskiptaMogganum í gær dró Arev N II sig til baka úr kaupum á Múrbúðinni og semur við seljandann um bætur vegna samningsrofsins. Er það í kjölfar þess að forsendur brustu fyrir rekstri sjóðsins. Einkum var það vegna þess að einn hluthafa stóð ekki skil á greiðslu hlutafjár eins og hann hafði skrifað sig fyrir. Hratt það af stað atburðarás þar sem skipt var um stjórn sjóðsins og eignastýringarsamningi við Arev verðbréf rift. Þá munu afdrif fjárfestingar í Duchamp hafa haft sömu áhrif.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins þykir líklegt að endurheimtur yfir 500 milljóna fjárfestingar í hlutafé og lánum til Duchamp muni engar verða.