Gæti stefnt í hótelskort á næsta ári

Fjöldi erlendra ferðamanna verður orðinn 2,5 milljónir árið 2018 miðað ...
Fjöldi erlendra ferðamanna verður orðinn 2,5 milljónir árið 2018 miðað við spá Arion banka. Mikið þarf að gera í innviðauppbyggingu til að taka á móti þeim fjölda og uppsafnaður fjárfestingahalli til vegamála nemur um 23 milljörðum síðustu árin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helsta áskorunin sem tengist ferðaþjónustu hér á landi á næstunni er innviðauppbygging, hvort sem hún nefnist hóteluppbygging, afþreying og ekki síst uppbygging samgöngukerfisins. Þetta segja Erna Björg Sverrisdóttir og Konráð S. Guðjónsson, hjá greiningardeild Arion banka, en í dag kynntu starfsmenn deildarinnar nýja ferðþjónustuúttekt deildarinnar.

„Einhvers staðar verða þeir að gista

„Ef við ætlum að taka á móti öllum þessum ferðamönnum, einhvers staðar verða þeir að gista og einhverja afþreyingu verðum við að hafa fyrir þá,“ segir Erna í samtali við mbl.is, en hún bendir á að miðað við spá greiningardeildarinnar um fjölgun ferðamanna á komandi árum megi gera ráð fyrir því að allt hótelrými á höfuðborgarsvæðinu væri fullnýtt strax á fyrsta ársfjórðungi næsta árs ef ekki væri áfram bætt við gistirýmum. Hún tekur þó fram að sem betur fer sé talsvert um að unnið sé að nýjum hótelum.

Miðað við þær upplýsingar sem greiningardeildin gat aflað sér um ný hótel sem á að ráðast í byggingu á er þó ljóst að strax á næsta ári gæti orðið skortur á gistiplássi.

Graf/Arion banki
Graf/Arion banki

Vinnumarkaðurinn gæti orðið vandamál

Þá segir Erna að Ísland standi frammi fyrir miklum vanda vegna uppbyggingar samhliða þessari fjölgun í formi vinnumarkaðarins. Segir hún gríðarlegan þrýsting á vinnumarkaðinum í dag og að erfitt geti reynst að manna bæði iðnaðarstörf og svo þjónustuna sem fylgi í kjölfarið. Segir hún þetta vera talsverða vaxtaverki í greininni um þessar mundir.

Erna Björg Sverrisdóttir og Konráð S. Guðjónsson hjá greiningardeild Arion ...
Erna Björg Sverrisdóttir og Konráð S. Guðjónsson hjá greiningardeild Arion banka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í skýrslunni kemur fram að fyrir hverja 111 ferðamenn megi gera ráð fyrir að eitt nýtt starf skapist í ferðaþjónustu hér á landi. Miðað við spá greiningardeildarinnar um að ferðamenn verði orðnir 2,5 milljónir árið 2018 kallar slík fjölgun því á á milli 10 og 11 þúsund ný störf. Er það svipaður fjöldi og náttúruleg fjölgun á vinnumarkaði samkvæmt spá Hagstofunnar og því ljóst að eftirspurnarþrýstingur á vinnumarkaðinum mun ekkert losna og aukin spurn er eftir starfsfólki úr öðrum greinum líka.

Graf/Arion banki

23 milljarða uppsöfnuð fjárfestingaþörf í vegakerfinu

Konráð segir að þá þurfi að fara að huga verulega að uppbyggingu í samgöngumálum. „Sérstaklega virðist þurfa að byggja upp vega- og samgöngukerfið til að ná betri dreifingu ferðamanna, sem er lykilatriði svo það séu öruggar og tryggar samgöngur um allt land og til að dreifa ferðamönnum sem best um allt land og nýta þá innviði sem eru í gistirými sem eru til nú þegar utan suðvesturhornsins,“ segir Konráð.

Hann bendir á að útgjaldaaukning í vegum og brúm hafi ekki fylgt fjölgun bíla og að frá árinu 2011 megi meta gróflega að uppsöfnuð fjárfestingaþörf í slíkum innviðum sé í kringum 23 milljarðar á föstu verðlagi.

„Þetta er svaðalega hraður vöxtur og maður óttast að einhvers staðar láti undan að óbreyttu,“ segir Konráð og bætir við: „Við getum alveg vaxið hraðar og tekið á móti fleiri ferðamönnum, en það er ekki endilega gott að vaxa svona hratt mikið lengur.“

Graf/Arion banki
Graf/Arion banki

Gætum við orðið fyrir „hollensku veikinni“?

Í skýrslu greiningardeildarinnar er meðal annars komið inn á hvernig ferðaþjónustan standi mjög öflugt núna, en slíkt getur komið niður á öðrum útflutningsgreinum eins og áliðnaði og sjávarútvegi. Er það ein útgáfa af „hollensku veikinni,“ en það er heiti sem notað er til að lýsa því þegar menn finna náttúruauðlind sem drekkir öðrum útflutningsgreinum. Segir Erna að styrking krónunnar vegna innflæðis frá ferðaþjónustu geti einnig komið niður á ferðaþjónustunni sjálfri.

Segir Konráð að ef styrking krónunnar dragi ferðaþjónustuna niður verði það vonandi á þann veg að það hægi á vextinum eða að fjöldi ferðamanna standi í stað. „Það er nóg af ferðamönnum í dag þannig að næstu 1-2 árin án fjölgunar verða ekki vandamál,“ segir hann.

Hverjir 111 ferðamenn sem hingað koma skapa eitt starf.
Hverjir 111 ferðamenn sem hingað koma skapa eitt starf. mbl.is/Styrmir Kári

„Draumalandið eða djöflaeyjan“

Þau segja að yfirskrift skýrslunnar, „Draumalandið eða djöflaeyjan“, sé skírskotun í að Íslendingar standi á ákveðnum krossgötum í dag. Það séu vissar vísbendingar um að við nálgumst ákveðin þolmörk, sérstaklega á vinnumarkaði og varðandi fjárfestingu í innviðum. Segja þau að enn sé ekki alveg komið að þeim, en að undanfarið ár hafi ferðaþjónustan hér á landi færst nær þolmörkunum.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir