Erfiðast að eignast íbúð í borginni

Það hefur orðið höfuðborgarbúum erfiðara að eignast íbúð miðað við ...
Það hefur orðið höfuðborgarbúum erfiðara að eignast íbúð miðað við laun síðustu árin. mbl.is/Golli

Dýrast er að kaupa íbúð á höfuðborgarsvæðinu miðað við laun og hefur það orðið erfiðara frá árinu 2010 á sama tíma og það hefur orðið auðveldara annars staðar á landinu. Launamunur á milli landshluta skýrir ekki muninn því munur á milli hæsta og lægsta fermetraverðs er 300% en launa 20%. 

Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur hjá greiningu Íslandsbanka, fór yfir þróun íbúðaverðs á Íslandi á fundi bankans þar sem ný skýrsla um íbúðamarkaðinn var kynnt síðdegis í dag. Rakti hann hvernig ólík þróun hafi verið á verði íbúða eftir landshlutum en það hefur hækkað mest á höfuðborgarsvæðinu.

Frétt Mbl.is: Innistæða fyrir hærra íbúðaverði

Þar hafi fermetraverð hækkað um 46% en á Vestfjörðum þar sem minnsta breytingin hefur orðið hafi hún aðeins verið 1%. Frá árinu 2010 hafi íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 29% en í flestum öðrum landshlutum hafi verðið nánast staðið í stað.

Ekki sé beint hægt að álykta að launaþróun skýri mismunandi þróun íbúðaverðs á landinu enda sé ekki mikill munur á launum eftir landshlutum. Íbúðaverð hafi hækkað umfram laun á höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi eystra en öfugt alls staðar annars staðar á landinu.

Erfiðast er fyrir fólk að eignast íbúð á höfuðborgarsvæðinu miðað við laun. Þar kostar það fólk tæplega sjöföld árslaun að kaupa íbúð borið saman við um það bil tvöföld á Vestfjörðum fyrir sambærilega 100 fermetra íbúð.

Smærri íbúðir hækkað meira

Mestu skekkjuna á milli fjölda íbúða og íbúa sagði Elvar Orri jafnframt vera á höfuðborgarsvæðinu. Þar væru rúm 64% landsmanna en um 62% íbúðanna. Þá hafi fermetra verð smærri íbúða hækkað meira en þeirra stærri. Sá munur hafi þrefaldast frá því fyrir hrun. Það sagði hann sterka vísbendingu um að skortur væri á smærri íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.

Frétt Mbl.is: Ein af hverjum átta íbúðum í leigu á Airbnb

Hlutfallslegur fjöldi smærri íbúða í miðborg Reykjavíkur og nærliggjandi svæðum sagði Elvar Orri skýra að hluta hvers vegna íbúðaverð hafi hækkað mest þar. Þá þurfi að líta til þess að ferðaþjónusta hafi lagst þyngra á það svæði en önnur og skert framboð á íbúðum til innlendra aðila.

Dýrustu svæðin á höfuðborgarsvæðinu væru miðborgin (101), Seltjarnarnes (170), Vesturbærinn (107) og Hlíðar (105).

Íslandsbanki kynnti skýrslu um íslenska íbúðamarkaðinn í dag þar sem ...
Íslandsbanki kynnti skýrslu um íslenska íbúðamarkaðinn í dag þar sem spáð er verulegri hækkun á íbúðaverði næstu árin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áfram þungur þrýstingur í Reykjavík

Spáði Elvar Orri að sú þróun að miðborgin og nærliggjandi svæði og smærri íbúðir héldu áfram að hækka meira en önnur svæði og íbúðarstærðir kæmi til með að halda áfram á næstu árum. Hlutfall smærri íbúða hafi lækkað úr 60% árið 2000 í 55% í ár. Hlutfall smærri íbúða í nýbyggingum væri 54%.

Frétt Mbl.is: Þörf á smærri íbúðum aldrei meiri

Þar við bættist að þær íbúðir sem eru í byggingu verði ekki tilbúnar fyrr en seint á spátímabil bankans, árið 2019. Því megi búast við að þrýstingur á verðhækkanir á íbúðum í Reykjavík verði þungur á næstu tveimur árum.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir