Sérbýli hækkað um 12,4%

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað mikið síðustu 12 mánuði.
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað mikið síðustu 12 mánuði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3% milli mánaða í september. Verð á fjölbýli stóð í stað og verð á sérbýli hækkaði um 1,5%. Síðustu 12 mánuði hefur fjölbýli hækkað um 12,3%, sérbýli um 12,4% og er heildarhækkunin 12,2%.

Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans segir að hækkanir síðustu 12 mánaða séu mjög miklar og að fara þurfi allt aftur til ársins 2007 til að sjá álíka tölur.

Árshækkun sérbýlis meiri en fjölbýlis

„Það er athyglisvert að árshækkun sérbýlis er nú orðin meiri en hækkun fjölbýlis og hefur sú staða ekki verið uppi síðan vorið 2012. Allt frá þeim tíma hefur árshækkun fjölbýlis verið meiri. Sé litið á hækkun síðustu 6 mánuði má sjá að sérbýli hefur hækkað um 8,3% og fjölbýli um 7,7%. Sérbýli hefur því hækkað töluvert meira á allra síðustu mánuðum. Breytingar á verði sérbýlis eru jafnan mun sveiflukenndari en á fjölbýli, en núverandi hækkunarferill sérbýlis hefur bæði verið óvenjulangur og hækkunin óvenjumikil,“ segir í hagsjánni.

Þar kemur fram að viðskipti með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu í september hafi verið töluvert minni en á sama tíma í fyrra. Það eigi einkum við um viðskipti með fjölbýli. Fjöldi þeirra viðskipta var rúmlega fjórðungi minni nú en í fyrra.

„Þó ekki megi taka of mikið tillit til niðurstöðu einstakra mánaða í þessu sambandi er þessi fækkun viðskipta með fjölbýli athyglisverð og hefur þróunin verið niður á við síðustu 12 mánuði,“ segir í hagsjánni.

Markaðurinn staðnaður

„Það sem af er árinu 2016 eru meðalviðskipti með fasteignir á mánuði minni en var á öllu árinu 2015. Viðskipti með sérbýli hafa verið örlítið fleiri en í fyrra en fjöldi viðskipta með fjölbýli töluvert minni.

Eftir mikla aukningu fasteignaviðskipta allt frá árinu 2009 lítur nú út fyrir að markaðurinn sé staðnaður og fjöldi viðskipta breytist ekki mikið. Það er viðtekin í skoðun í samfélaginu að mikil spurn sé eftir húsnæði, sérstaklega litlum íbúðum. Þeirri eftirspurn hefur ekki verið mætt. Almennt má segja að skortur á framboði íbúða samfara mikilli kaupmáttaraukningu sé helsti skýringarþáttur mikilla verðhækkana á síðustu misserum.

Miðað við nýjustu tölur um verð og fjölda viðskipta virðist sem þrýstingurinn sé að færast meira yfir á markaðinn með sérbýli en verið hefur. Það verður því athyglisvert að fylgjast með markaðnum fyrir sérbýli á næstu mánuðum.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir