Áfengissala í Fríhöfninni dregst saman

„Þeir sem notfæra sér aukninguna sem varð ef keyptur er ...
„Þeir sem notfæra sér aukninguna sem varð ef keyptur er eingöngu bjór eru ekki nógu margir til að vega upp á móti þeim sem kaupa helst minni bjór með sterku og léttu áfengi." mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Sala á áfengi, í lítrum talið, hefur dregist saman í Fríhöfninni eftir að nýjar reglur um áfengiskaup ferðamanna tóku gildi.

Í sumarbyrjun var reglum um áfengiskaup ferðamanna breytt á þann veg að nú geta þeir nýtt allan tollinn til kaupa á aðeins sterku áfengi, léttvíni eða bjór. Áður þurfti að blanda saman sortum í samræmi við fimm ólíkar samsetningar. Fyrir þessa breytingu var í mesta lagi hægt að kaupa einn lítra af sterku áfengi en nú er hámarkið 1,5 lítrar og sá sem vill eingöngu vín getur nú tekið 6 flöskur í stað fjögurra. Á sama hátt getur ferðamaður sem aðeins kýs bjór keypt sex hálfs lítra kippur af öli en áður var hámarkið 4 kippur. 

Greint er frá þessu á vef Túrista. Þar kemur fram að í forsendum frumvarps fjármálaráðherra um þennan nýja tollkvóta var hins vegar búist við aukinni sölu í komuverslun Fríhafnarinnar. Ástæðan fyrir þessari öfugu þróun er, að mati Þorgerðar Þráinsdóttur framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar, sú að þær leiðir sem nutu mestra vinsælda í gamla kerfinu innihalda of margar áfengiseiningar miðað við nýja fyrirkomulagið.

„Þeir sem notfæra sér aukninguna sem varð ef keyptur er eingöngu bjór eru ekki nógu margir til að vega upp á móti þeim sem kaupa helst minni bjór með sterku og léttu áfengi. Þetta hefur leitt til þess að bjór hefur minnkað nokkuð í magni sem hlutfall af heildarsölu. Sjötíu prósent af þeim bjór sem seldur er í komuverslun Fríhafnarinnar er innlend framleiðsla og því hefur þetta nokkur áhrif á innlenda bjórframleiðendur og mun til lengri tíma geta haft töluverð áhrif á sölu á íslenskum bjór,” bætir Þorgerður við.

Frétt Túrista í heild má sjá hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir