Mesta verðhækkun síðan 2007

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2% milli mánaða í október. Verð á fjölbýli hækkaði um 1,8% og verð á sérbýli um 2,2%. Síðustu 12 mánuði hefur fjölbýli hækkað um 13,6%, sérbýli um 14,2% og er heildarhækkunin 13,6%. Þetta eru mestu árshækkanir sem sést hafa allt frá árinu 2007. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Hagsjá Landsbankans. 

„Það er athyglisvert að árshækkun sérbýlis er meiri en á fjölbýli annan mánuðinn í röð og hefur sú staða ekki verið uppi síðan vorið 2012. Allt frá þeim tíma hefur árshækkun fjölbýlis verið meiri. Síðustu 6 mánuði hefur sérbýlið hækkað um 10,6% og fjölbýli um 8,6%. Sérbýli hefur því tekið nokkuð fram úr á allra síðustu mánuðum.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis nú í október var 0,5% lægri en í september 2015 þannig að allar nafnverðshækkanir á húsnæði síðasta árið koma nú fram sem raunverðshækkun og rúmlega það. Raunverð fjölbýlis hefur hækkað um 50% frá upphafi ársins 2011 og raunverð sérbýlis um 30%.

Það sem af er árinu 2016 eru meðalviðskipti með fasteignir á mánuði eilítið meiri en var á öllu árinu 2015. Viðskipti með fjölbýli eru svipuð en sérbýlin hafa verið mun líflegri en í fyrra.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár, sem byggð eru á þinglýstum kaupsamningum, hafa á síðustu fjórum árum einungis rúmlega 1.000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem byggðar hafa verið 2012 og síðar verið seldar, eða sem nemur tæplega 8% af viðskiptum tímabilsins. Það er því varla hægt að halda því fram að dýrari nýbyggingar séu ráðandi í verðþróun síðustu missera,“ segir í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

40% af fasteignaviðskiptum með nýjar íbúðir í Garðabæ

Hlutfall nýrra íbúða af viðskiptum hefur verið mjög mismunandi eftir sveitarfélögum, langlægst í Reykjavík og langhæst í Garðabæ. Síðustu 4 ár hefur einungis um 3% af viðskiptum í Reykjavík verið með nýjar íbúðir og 2% í ár. Í Garðabæ hefur rúmlega 40% af viðskiptum í ár verið með nýjar íbúðir og um 26% að meðaltali á síðustu fjórum árum.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir